146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er margt sem hægt væri að ræða hér í dag hvað varðar störf þingsins. Má þar nefna að aðilar hafa komið að máli við nokkra hv. þingmenn og sagt að nú þegar hafi hæstv. heilbrigðisráðherra gefið leyfi fyrir því að fyrsta einkarekna sjúkrahússþjónustan hér á landi geti farið að veita þjónustu sína. Ég hef ekki heyrt fréttir þess efnis frá hæstv. heilbrigðisráðherra og þetta mál hefur ekki komið fyrir hv. Alþingi. Ég get því ekki annað en spurt hér í ræðustól Alþingis hvort hæstv. heilbrigðisráðherra sé búinn að stíga stærstu skref í einkavæðingu heilbrigðiskerfisins án þess að koma með málið til þingsins. Getur einhver hv. þingmaður ríkisstjórnarinnar upplýst okkur um málið?

Annað sem ég ætla að nefna eru fyrirspurnir hv. þingmanna. Ég á nokkuð margar fyrirspurnir og eins og gengur og gerist hefur sumum þeirra verið svarað og öðrum ekki. Ég á m.a. fyrirspurnir til munnlegs svars sem beint var til hæstv. samgönguráðherra þann 22. febrúar sl. Þær fyrirspurnir varða vegalagningu um Teigsskóg og Alexandersflugvöll. Liðinn er mánuður frá því að þessar fyrirspurnir voru lagðar fram í þinginu. Þessar fyrirspurnir hafa þrisvar sinnum verið settar inn í drög að dagskrá fyrirspurnatíma hér á Alþingi. Í öll skipti hef ég samþykkt drögin og verið tilbúin til að taka umræðuna. En þetta hefur alltaf strandað á mætingu hæstv. samgönguráðherra. Ég get vel skilið að hæstv. ráðherrar hafi nóg að gera og komist ekki í alla fyrirspurnatíma, en biðin er orðin löng og ég vona að þessi máli verði á dagskrá í næsta fyrirspurnatíma hér á hv. Alþingi. Er kannski kominn flótti í hæstv. ráðherra hvað varðar mætingu í þessa fyrirspurnatíma?