146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

lífeyrissjóðir.

[15:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Lífeyriskerfið hér á landi byggist að megninu til á þremur meginþáttum; almannatryggingakerfinu sem er fjármagnað með sköttum, lífeyrissjóðum sem ætlað er að standa undir ellilífeyri og samtryggingu og fjármagnaðir eru með sjóðsöfnun, og svo er það séreignarsparnaður þar sem markmiðið er að byggja upp sparnað til efri áranna.

Sameiginlegt markmiðið með starfsemi lífeyrissjóða er að tryggja lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga eftir starfslok þeirra og vegna örorku eða andláts. Lög um lífeyrissjóði og eftirlit með rekstri þeirra ættu að tryggja að starfsemi þeirra samræmist settum markmiðum. Það er mikið álitamál að mínu mati hvort samkeppnissjónarmið eiga þarna við með tilliti til þessa. Að líkindum væri eðlilegra að sameina rekstur í lífeyrissjóðakerfinu í ríkari mæli og jafna grunnlífeyrisrétt.

Ýmsar leiðir eru til að auka áhrif sjóðfélaga á stefnu og fjárfestingar lífeyrissjóða og ætti hiklaust að beita þeim til að efla mjög áhrif sjóðfélaga á stefnu og fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðirnir gætu t.d. lagt fram fjárfestingarstefnu sem byggðist á reglum G20-ríkjanna og OECD um stjórn fyrirtækja og fjölþjóðlegra fyrirtækja, reglum og leiðbeiningum Sameinuðu þjóðanna sem á ensku heita Global Compact og varða markmið um sjálfbærni, virðingu fyrir mannréttindum, réttindum verkafólks, umhverfissjónarmið, loftslagsmál og varnir gegn spillingu. Lífeyrissjóðir ættu hiklaust að leggja fram slíka stefnu og gefa sjóðfélögum tækifæri til að hafa áhrif á hana og greiða um hana atkvæði. Þetta er ekki síst mikilvægt þegar í það stefnir að lífeyrissjóðir fjárfesti erlendis í ríkari mæli eftir að gjaldeyrishöft hafa verið afnumin. Lífeyrissjóðir ættu að leggja fram miklu skýrari fjárfestingarstefnu og siðareglur varðandi fjárfestingar en þeir hafa hingað til gert og veita sjóðfélögum tækifæri til áhrifa á þeim vettvangi. Einnig má vel hugsa sér að efna til atkvæðagreiðslu meðal sjóðfélaga um stefnumótandi ákvarðanir á þessu sviði.

Það er afar mikilvægt að hafa lýðræði í hávegum og beita lýðræðislegum aðferðum við lausn mála. Að sjálfsögðu ættu sjóðfélagar að kjósa einstaklinga í stjórnir lífeyrissjóðanna og nauðsynlegt er að setja tímamörk um setu í lífeyrissjóðum.