146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

lífeyrissjóðir.

[16:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka frummælanda kærlega fyrir þessa umræðu, hún er mjög mikilvæg, og ráðherranum fyrir svör hans.

Líkt og kom fram í máli frummælanda eru lífeyrissjóðirnir okkar gífurlega öflugir. Þetta eru það stórar upphæðir sem við erum að tala um hér sem við greiðum hvert og eitt okkar inn í þessa sjóði að það er eiginlega erfitt fyrir okkur að ná utan um þessar tölur.

Grunnhugsunin sem ég vil leggja áherslu á varðandi lífeyrissjóðakerfið er að meginstoðin er svokallað sameignarkerfi þar sem við ávinnum okkur ákveðin réttindi og höfum sameiginlega tryggingu fyrir því að þó að einhver einstaklingur lifi að verða 100 ára verði tryggt að hann fái lífeyri meðan eins og við vitum mun annar einstaklingur hugsanlega lifa styttra.

Það er líka mjög mikilvægt að hafa í huga að lífeyrissjóðirnir hafa í auknum mæli verið að taka á sig kostnað og greiða fyrir aukna þjónustu gagnvart þeim sem missa starfsgetuna. Það er líka mjög mikilvægt að hafa það í huga. Það sem ég vil líka ítreka er að þau réttindi sem við eigum í lífeyrissjóðunum eru eitthvað sem hefur verið samið um á almennum vinnumarkaði. Þetta eru samningsbundin réttindi. Við hér höfum hins vegar sett inn ákveðinn lagaramma um hvernig lífeyrissjóðunum er stjórnað, hvernig þeir fjárfesta, og það er að sjálfsögðu eðlilegt að við förum reglulega yfir það hvort eitthvað í þeim lögum þurfi að bæta.

Ég hef sjálf flutt nokkrum sinnum frumvarp um aukið lýðræði í stjórn lífeyrissjóðanna og aukið gagnsæi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við eigum samtal við aðila vinnumarkaðarins um það hvort og hvernig við gerum nauðsynlegar breytingar í samræmi við það sem upp á kemur eða við teljum að þurfi að bæta úr varðandi sjóðina. (Forseti hringir.) Ég er algerlega sannfærð um það, og vænti þess að bæði ráðherra og frummælandi taki undir með mér, að þetta verður svo sannarlega ekki í síðasta skipti sem við munum ræða lífeyrissjóðina.