146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

lífeyrissjóðir.

[16:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég vil vekja athygli á varðandi lífeyrissjóðakerfið. Annars vegar eru það áhrif lífeyrissjóðanna á samkeppni og hins vegar ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna.

Á fundi Samkeppniseftirlitsins á síðasta ári var einmitt sérstaklega fjallað um áhrif lífeyrissjóðanna á samkeppni og eftirfarandi dæmi gefið, með leyfi forseta:

„Dæmi um þetta er eignarhald á vátryggingafélögunum þremur sem skráð eru í kauphöllinni. Af 15 stærstu hluthöfum félaganna þriggja eru 6 fjárfestar þar á meðal sem eiga hlut í öllum félögunum og 3 fjárfestar til viðbótar eiga í tveimur félögum. Fjórir stærstu stofnanafjárfestarnir sem eiga hlut í öllum félögunum eiga samtals 26% í Sjóvá, 25% í VÍS og 31% í TM. Annað dæmi eru fasteignafélögin. Af 15 stærstu hluthöfum skráðu fasteignafélaganna eru 5 stofnanafjárfestar eigendur hluta í öllum félögunum. Samanlagður eignarhlutur þeirra nemur 35–44% í hverju félagi.“

Það gefur augaleið að eigendurnir hafa ekki mikinn áhuga á því að eitt af fyrirtækjunum þeirra fari út í alvöru samkeppni við hin fyrirtækin, sem þeir eiga þá líka. Vandamálið samkeppnislega séð fyrir neytendur er augljóst. Hitt vandamálið er ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna vegna þess hversu stórt lífeyrissjóðakerfið er. Eignir lífeyrissjóðanna eru hærri en árleg verg landsframleiðsla Íslands. Til einföldunar, segjum að verg landsframleiðsla og eignir lífeyrissjóðanna innan lands sé sama upphæðin. Ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna er 3,5% og þar er ekki tekið tillit til verðbólgu. Til þess að sjóðirnir geti staðið undir þeim réttindum sem sjóðfélagar telja sig vera að vinna inn þá þarf að ná þessari ávöxtunarkröfu. Það þýðir að höfuðstóll lífeyrissjóðanna verður tvöfaldur eftir 20 ár. Ávöxtunin er augljóslega hluti af vergri landsframleiðslu. Til þess að ávöxtun lífeyrissjóðanna sé ekki vaxandi hluti af vergri landsframleiðslu þá þarf hagvöxtur að vera a.m.k. jafn hár og ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna, annars myndu lífeyrissjóðirnir smám saman taka til sín stærri og stærri hluta af vergri landsframleiðslu sem gengur augljóslega ekki til lengdar. Afleiðingin er að ríkið kemur til með að þurfa að hjálpa lífeyrissjóðunum til þess að standa skil gagnvart sjóðfélögum og réttindum þeirra.