146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

lífeyrissjóðir.

[16:19]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég ætla að þakka þessa umræðu hér í dag. Ég veit ekki hvort síðasti ræðumaður var að beina sérstökum spjótum að mér þegar hann talaði um frjálshyggjupostula, en ég hef nú talið mig í hópi þeirra sem boða a.m.k. meira frelsi heldur en helsi. En við skulum fara í annað.

Ég er mjög ánægður með svör hæstv. fjármálaráðherra og hvernig hann nálgast þetta viðfangsefni. Ég var sérstaklega ánægður með það að hann telji það koma til greina að auka valfrelsi launafólks þegar kemur að lífeyrissjóðum vegna þess að ég held að það sé kannski það sem muni auka aðhaldið meira en nokkuð annað. Það skiptir máli.

Það er rétt að við erum að tala um fjöregg. Það er rétt að við erum að tala um sameiginlegan sjóð sem er samtryggingarsjóður. Við þurfum auðvitað að hafa það í huga og allar þær breytingar sem við gerum eða leggjum til verða að taka mið af því. Það er alveg kórrétt sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson benti á að þetta verður auðvitað að hafa allt í huga og við eigum ekki að gera breytingar breytinganna vegna heldur fyrst og fremst til þess að tryggja betur hag annars vegar launafólks, samtryggingarkerfið sem er fólgið í lífeyrissjóðunum, en líka að auka um leið það traust sem verður að ríkja til þeirra aðila sem fara með jafn mikla fjármuni og lífeyrissjóðirnir gera. 3.500 milljarðar verða tvöföld sú fjárhæð á næstu 12–15 árum. Það eru gríðarleg völd og áhrif sem því fylgja. Þess vegna verðum við að tryggja að það sé sátt um stefnuna, sátt um það hvernig (Forseti hringir.) er staðið að verki og við gerum okkur grein fyrir því hvert við erum að stefna (Forseti hringir.) og með hvaða hætti ákvarðanir allar eru teknar.