146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[17:41]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Ég er mjög ánægður með þetta mál og styð það heils hugar. Ég fagna því að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafi lagt það fram hér, það er mikilvægur hlekkur á þeirri vegferð að ná utan um aðgangsstýringu á vinsælum ferðamannastöðum vítt og breitt um landið. Þetta mál er stórt púsl inn í þá heildarmynd sem við setjum okkur.

Það skiptir máli í allri þessari umræðu að við áttum okkur á því að með bílastæðagjöldum eins og hér er verið að leggja til erum við öðru fremur að reyna, og það skiptir máli, að hafa aðgangsstýringu á vinsælum ferðamannastöðum. Það er fyrst og fremst gert til að vernda mikilvægar náttúruperlur, vernda þær gegn átroðningi, vernda þær gegn því að við missum það úr höndunum hvað viðkvæmir ferðamannastaðir, náttúruperlur, þola mikinn átroðning. Það eru vissulega takmörk fyrir því. Eru einhver takmörk fyrir því hve margir ferðamenn geta á hverjum degi farið og skoðað Geysi? Þar eru takmörk og við þurfum tæki til að stýra því. Við gerum það á vissan hátt með bílastæðagjöldum, ekki endilega með því að setja gjald á það að skoða náttúruna, heldur að reyna að setja gjald á það hvað svæðið ber marga ferðamenn á hverjum tíma.

Það er því algjörlega sjálfsagt, eins og kemur fram í frumvarpinu, að útvíkka þá reglu sem sveitarstjórnir hafa í þéttbýli, til þess að hún nái til sveitarstjórna sem geta og þurfa að setja á gjald á stöðureiti í dreifbýli. Ég get nefnt sem dæmi svæði sem er mjög viðkvæmt, mjög sérstakt svæði, og getur alveg heyrt hér undir, en það er Látrabjarg í Vesturbyggð. Þar er átroðningurinn svo mikill að sveitarfélagið hefur bent á að það sé í vandræðum með að tryggja og vernda svæðið. Með þeirri heimild sem fæst í þessum lögum er alla vega komið tæki til að koma skikki á þessi mál, til að fjármagna þörfina á þessum svæðum, byggja upp þjónustu eða aðstöðu og tryggja að bílar séu á þeim stað sem þeir eiga að vera, á sínum svæðum, að þeim sé ekki ekið út af vegum eða lagt þar sem ekki á að leggja þeim.

Ég fagna þessu máli. Ég fagna því líka, sem ég heyri í þessum þingsal, að breið og góð samstaða virðist vera til staðar þvert á pólitískar línur um meginatriði þessa máls. Ég fagna því að við séum hægt og rólega en örugglega að feta okkur áfram, ná árangri í umræðu um það hvernig við tökumst á við það að vernda mikilvæga ferðamannastaði, vernda náttúruperlur landsins og tryggja að þeir borgi sem njóta, en það er eðli þjónustugjalda. Ég held að hæstv. ráðherra sé á réttri leið í þessu máli. Ég hef trú á því að í hv. umhverfis- og samgöngunefnd geti náðst góð og breið samstaða um málið.