146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[17:49]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum nokkuð sammála, hv. þm. Teitur Björn Einarsson og ég, en samt sem áður, bara til að fyrirbyggja misskilning, eru bílastæðagjöld upp á einhver hundruð króna, og jafnvel hærri upphæð, mjög mögur leið til aðgangsstýringar, svo að það sé alveg á hreinu. Það er heldur ekki hægt að byggja ítölu, ef við orðum það nú bara hreint út, á þekkta ferðamannastaði á stærð bílastæða. Það þarf miklu meiri og flóknari aðgerðir til. Þessi spurning mín um Geysi, um 500 bílastæði, var sett fram til þess að ítreka að bílastæði og bílastæðagjöld eru ekki aðgangsstýring, nema menn ákveði þá að eingöngu sé hægt að hleypa inn því fólki sem kemur á rútubílastæðin og minni bílastæðin hverju sinni, að það sé aðgangsstýringin. En ég ítreka að annaðhvort erum við sammála um þetta eða ósammála.