146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[17:53]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og lýsa yfir ánægju með þetta frumvarp frá hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Það er í anda þeirrar stefnu sem Viðreisn hefur talað fyrir, að beita bílastæðagjöldum til þess að afla tekna og til aðgangsstýringar á fjölförnum ferðamannastöðum. Vissulega er það rétt sem hér hefur komið fram að hér er um að ræða þjónustugjöld. Af lagalegum og stjórnskipunarlegum ástæðum er ekki hægt að nota þau í hvað sem er. Í þessu tilfelli eru talin upp þau atriði sem nota má þjónustugjöldin til. Það er þá heimild sambærileg þeirri sem sveitarstjórnir hafa til að taka gjöld af bílastæðum í þéttbýli. Það er vel.

Almennt er ég á þeirri skoðun, það væri mér algerlega að meinalausu að ganga lengra og auka þessa heimild þannig að um væri að ræða einhvers konar skattheimtu, eða hvað sem það myndi heita, einhvers konar aðgangseyri inn á vinsæla ferðamannastaði. Þann pening sem fengist út úr slíkri gjaldheimtu mætti nota til að byggja upp á svæðinu í heild en ekki einungis á bílastæðinu og í kringum það. En eins og komið hefur fram er það ekki efni þessa frumvarps hér.

Annar kostur þess að nota þetta fyrirkomulag er að það er eins konar aðgangsstýring. Það má auðvitað deila um hve mikil hún er en ég held að það sé þó augljóst að að öllu óbreyttu er líklegra að ferðamaður fari síður inn á stað þar sem um gjald fyrir bílastæði er að ræða, en ef slíkt gjald væri ekki til staðar. Í því felst þá einhvers konar aðgangsstýring. Hún þarf ekki endilega að vera mjög há til þess að það virki eitthvað. Ég held að um tvennt sé að ræða; annars vegar er til hópur ferðamanna sem forðast að greiða fyrir svona hluti og þá færu þeir hugsanlega eitthvert annað. Það myndi þá leiða til þess að álagið minnkaði á viðkomandi stöðum. En svo er vissulega rétt að gjaldið þyrfti að vera enn þá hærra til þess að næsti hópur ferðamanna, þeir sem eru með góða tilfinningu fyrir verðlagi, myndu hverfa frá. En það er ekki markmið með frumvarpinu og ekki endilega markmið í sjálfu sér.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég lýsi aftur yfir ánægju minni með efni þessa frumvarps og hlakka til að takast á við það í hæstv. umhverfis- og samgöngunefnd.