146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

málefni aldraðra.

223. mál
[18:33]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það fór eins og ég sagði að hv. þingmaður hefði svör við mörgum af þeim fjölmörgu spurningum sem vöknuðu við lestur minn á þessu. Ég nýti mér þá kannski aðstöðu mína til að ræða þessi mál frekar því að þetta er eitt af stóru málunum. Ég vil ítreka mjög ánægju mína með að frumvarpið skuli komið hér fram.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á í framsögu sinni, og komið er inn á í greinargerðinni, afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga um þessi óljósu ábyrgðarskil á milli heilbrigðis- og öldrunarþjónustu. Hér í umræðunni hefur komið fram flutningur málaflokks fatlaðs fólks yfir til sveitarfélaga. Málefni aldraðra voru og eru væntanlega enn í skoðun. En af því að þetta tengist nú allt þessum fjármunum sem eru oft upphaf og endir ýmissa framfaramála og mannréttindamála sem ég vil nú kalla þetta, þá langar mig að spyrja hv. þingmann aðeins út í það hver hún telji að verði afstaða sveitarfélaganna gagnvart þessu, en eins og hv. þingmaður veit telja þau að þau hafi borið frekar skarðan hlut frá borði þegar kemur að málefnum fatlaðs fólks, fjármunir hafi ekki endilega fylgt með þeim kostnaði sem þjónustan hefur kallað á og fleira í þeim dúr. Og af því að hér hefur verið tala um að mögulega verði þetta brúað af ríkinu langar mig að spyrja, bara af því að ég heyrði það ekki, það hefur kannski farið fram hjá mér, hvort hv. þingmaður hafi svarað því beint hvort hún telji að það þurfi jafnvel að koma til þess, að með svona frumvarpi þurfi að brúa einhvern kostnað af hálfu ríkisins.