146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

lax- og silungsveiði.

271. mál
[11:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég er ánægð að heyra að ráðherrann tekur undir með mér um að plastmengun í höfunum sé virkilegt vandamál og áhyggjuefni. Ég held að þetta verði því miður eitt af því sem við sem erum í stjórnmálum á fyrri hluta 21. aldar þurfum að hafa sífellt meiri áhyggjur af og vera með aðgerðir út af. Það tengist auðvitað menguninni. Það snertir líka það hvernig við ætlum að glíma við loftslagsbreytingar af mannavöldum. Það er allt saman tengt.

Án þess að vera neinn sérstakur sérfræðingur í álum hef ég þó náð að heyra það í umræðunni að þarna hafa vísindamenn áhyggjur af að tengsl séu á milli hruns í stofninum og plastmengunar. Er þá sérstaklega vísað til míkróplastaukningar. Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja hæstv. ráðherra og brýna hana til góðra verka í þessum efnum. Það er gott að ráðherrann sem fer með nýtingarþáttinn í auðlindum okkar setji sig líka inn í þessi mál og tali fyrir þeim, að þetta sé ekki bara afmarkað á sviði umhverfisráðuneytisins og hæstv. umhverfisráðherra. Ef okkur á að takast að gera eitthvað í mengunarmálum verður auðvitað að vinna þvert á ráðuneyti.

Þess vegna ætla ég í lokin að leyfa mér að benda hæstv. ráðherra á að skoða þetta með míkróplastagnirnar og hvetja hana aftur til að gera það sem hún getur í krafti síns embættis til að við getum lagt okkar af mörkum í því efni til að (Forseti hringir.) stemma stigu við mengun í höfunum.