146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

mengun frá United Silicon.

[15:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég verð nú bara að spyrja: Það voru þingflokksfundir hér rétt áðan og mér skilst að umhverfisráðherra hafi setið á þingflokksfundi með hæstv. heilbrigðisráðherra. Var þetta mál ekkert rætt á þingflokksfundi flokksins, Bjartrar framtíðar? Það kemur verulega á óvart. Og ég verð líka að nefna að ítrekað hefur verið farið fram yfir heilsumörk varðandi arsen, sem fer yfir leikskólasvæði í byggðarlaginu. Þetta hefur verið vitað. Við höfum fengið ítarlegar upplýsingar um þessi vandamál frá Umhverfisstofnun, vandamál sem lúta að heilbrigðismálum, frá því í upphafi þessa árs. Því verð ég að spyrja hæstv. ráðherra og formann ríkisstjórnarflokks að því hvort ekki sé tilefni til að kalla saman þverfaglegan fund með ráðherrum úr öllum ríkisstjórnarflokkum til að fara yfir þetta mál strax í dag.