146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

kostnaðarþátttaka sjúklinga vegna sérfræðiþjónustu.

[15:40]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegur forseti. Ég er hér með spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra sem varðar kostnaðarþátttöku almennings vegna mismunandi tegundar sérfræðiþjónustu.

Það styttist í innleiðingu á nýju greiðsluþátttökukerfi eins og hér hefur komið fram. Ætlunin er að verja þá notendur heilbrigðisþjónustunnar sem þurfa á mikilli þjónustu að halda. Af því tilefni sendi ASÍ frá sér tilkynningu um daginn. Athygli mín var vakin á því að í dæmum sem ASÍ tók af kostnaðarþátttöku almennings á þrenns konar þjónustu, þ.e. viðtali við kvensjúkdómalækni, viðtali hjá háls-, nef- og eyrnalækni og viðtölum hjá hjartalækni, var kostnaðarþátttaka almennings, kvenna, varðandi viðtöl hjá kvensjúkdómalækninum töluvert hærri. Í kjölfarið fór ég í nánari skoðun og greindi tölur frá árunum 2010–2016. Gróf yfirferð leiðir í ljós að þegar við skoðum meðaltal kostnaðarþátttöku almennings þá er hún í blönduðum greinum, þ.e. þar sem ekki er munur á því hvort karlar eða konur sækja þjónustuna, 11,5% yfir heildarmeðaltali. Þegar um er að ræða svokallaðar kvenlegar greinar er kostnaðarþátttaka almennings 10% yfir meðaltali. En þegar um er að ræða karllægar greinar er kostnaðarþátttaka einstaklinganna 33% undir meðaltali.

Ég ætla í sjálfu sér ekkert að standa hér og mótmæla því ef lesa má milli línanna að karlar séu almennt einfaldari og ódýrari gerð af homo sapiens en konur. En mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort ekki sé ástæða til að fara betur ofan í saumana á þessum málum, kyngreina komugjöld til sérfræðinga og nota tækifærið nú þegar verið er að vinna að breytingum á greiðsluþátttökureglugerðum og koma þessum málum í lag. Því að þetta er ekki í lagi svona.