146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

gengisþróun og afkoma útflutningsgreina.

[14:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég verð samt að fá að nota tækifærið og leiðrétta ráðherrann, það er ljóst að við erum fjölmörg sem höfum mikinn áhuga á gengisþróuninni og þetta er eitt af þeim verkefnum sem síðasta ríkisstjórn var að huga sérstaklega að. Það eru alla vega tvö tæki sem munu skipta máli og hafa þegar skipt máli, þ.e. annars vegar lög sem voru samþykkt varðandi vaxtamunarviðskipti og síðan taka ný lög gildi 1. apríl sem snúa að fasteignalánum til neytenda þar sem koma inn tvö ný þjóðhagsvarúðartæki sem Seðlabankinn hafði verið að kalla eftir.

Ég held að það sé, líkt og ráðherrann fór í gegnum, mjög brýnt að unnið verði mjög hratt í nefnd ráðherrans að því sem snýr að mótun peningastefnu. Seðlabankinn hefur talað um sín sjónarmið og kallað þau verðbólgumarkmið plús. Ég vil fá að nota tækifærið og ræða það og fá það nánar frá ráðherranum hvernig hann sér fyrir sér að hægt væri að útfæra myntráð og ekki hvað síst þegar horft er til fordæma eins og í Singapúr sem er lítið land sem byggir fyrst og fremst á útflutningi. Það er mjög áhugavert að sjá hvernig þeir hafa stigið enn lengra skref en Seðlabankinn hér hefur verið að tala fyrir, þeir hafa sagt skilið við verðbólgumarkmiðin og farið algjörlega yfir í gengismarkmið með ákveðið svigrúm líkt og ráðherrann ýjaði að að þyrftu að vera til staðar til að tryggja stöðugleika gagnvart heimilum landsins.

Þetta eru stórar spurningar. Þetta er það sem við verðum einfaldlega að halda áfram að takast á við saman. (Forseti hringir.) Ég hvet ráðherra eindregið til þess að (Forseti hringir.) fá sem fyrst tillögur frá sínum starfshópi þannig að við getum farið í að samþykkja nauðsynlegar lagabreytingar.