146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil fyrst ræða um sölu á bönkum þó að það hafi verið gert nokkuð ítarlega í kvöld. Ég vil ítreka að í eigendastefnu fyrir bankana hef ég sett fram þá stefnu að ríkið eigi að selja allan sinn hlut í Arion banka, í Íslandsbanka en halda eftir 33–40% hlut í Landsbankanum. Það eru hins vegar á þessari stundu engin sérstök áform um að selja. Það hefur enginn óskað eftir að kaupa og ég hef ekki sett þessa hluti í sölu.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann: Telur þingmaðurinn rétt að selja bankana og þá hvenær? Hvernig myndi þingmaðurinn standa að sölu bankanna? Ég held að mikilvægt sé að það komi fram hérna því að þingmaðurinn lýsti því yfir að hún teldi rétt að bankarnir yrðu seldir.