146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég tek undir það með honum að við fengum mismunandi svör hér í gær. En þýðir þetta ekki bara, eins og hv. þingmaður sagði, aukinn niðurskurð og einkavæðingu. Það er þar sem ríkisstjórnin hefur sýnt á spilin, hvort heldur er í samgöngum eða heilbrigðismálum eða hverju það nú er, að ákveðinnar tilhneigingar gætir til að fara í þá átt. Þingmaðurinn ræddi um getu Alþingis til að taka ákvarðanir um tiltekin verkefni. Ég var á fundi hjá Ríkisendurskoðun í morgun. Þar ræddum við meðal annars álit umboðsmanns Alþingis varðandi stjórnarskrárvarinn rétt þingsins til að taka ákvarðanir. Ég hef trú á því að það haldi, ég treysti því að stjórnarskráin vegi þungt. En auðvitað er ferlið mjög flókið. Við þurfum að finna farveg í því og komast að niðurstöðu um það. Það getur vel verið að við þurfum að laga þessi lög með einhverjum hætti. Þar voru ákveðnar hugmyndir viðraðar. En ég held að vilji sé til að skoða það hvernig ferlið getur best verið. Ég trúi því að við getum gert breytingar hérna.