146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:54]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að ákvarðanir eiga að vera teknar á faglegum forsendum og lýsing hv. þingmanns á loforðum fyrir kosningar ríma ágætlega við það sem ég ræddi, því að þar var ekki verið að ræða einstakar framkvæmdir heldur lofuðu heilu stjórnmálaflokkarnir uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Ég þykist muna eftir rúmlega 80 þús. undirskriftum sem hæstv. ráðherrar tóku á móti og fögnuðu um að hækka útgjöld til heilbrigðismála upp í 11% af vergri landsframleiðslu. Ég sé það ekki í þessari fjármálastefnu. En við komumst samt aldrei fram hjá því að ákvarðanir sem alþingismenn og stjórnmálamenn taka eru að miklu leyti til líka pólitískar. Það verður aldrei til það kerfi sem reiknar út og segir: Heyrðu, öll rök hníga að því að þetta eigi að gera núna, svo þetta og svo þetta. Og þannig væri tekið burt allt pólitískt mat eða mannlegt mat á því.

Það kerfi sem hv. þingmaður lýsti minnti mig helst á samgönguáætlun, þ.e. að gerðir séu útreikningar á þörf og kostnaði og raðað upp eftir því hvernig eigi að framkvæma. Er það ekki ágætislýsing á samgönguáætlun? Við höfum séð hvernig fór með hana. Ég er sammála því að allt sem dregur úr loforðaflaumi fyrir kosningar eða öllu heldur það sem gerir það að verkum að fólk þurfi að standa við loforðin eftir kosningar sé til bóta.