146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:58]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ákaflega athyglisvert andsvar. Ég treysti því að hann styðji mig í því í framtíðinni að fara fram á sérstaka umræðu um ljósritunarvélar þannig að við getum geymt þær hugleiðingar okkar. Ég er mjög hrifinn af þeirri hugmynd að kosningaloforð séu metin til fjár. Við í Vinstri grænum gerðum það fyrir síðustu kosningar. Það sem hefur loðað við allt of marga stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn allt of lengi er að vera duglegri við að lofa framkvæmdunum og útgjöldunum en að útskýra hvernig eigi að fjármagna það allt. Í mörgum tilfellum þýðir fjármögnun útgjalda aukna skattheimtu svo að dæmi sé tekið. Því miður hefur sú umræðuhefð af einhverjum ástæðum skapast hér á landi að skattar eru í munni sumra skammaryrði. Skattar eru fjármögnun samneyslunnar. Skattar eru það sem það kostar okkur öll að taka þátt í því mannlega samfélagi sem við búum í. Því miður hefur það allt of oft gerst að stjórnmálaflokkar hafa verið tregir til að útskýra hvernig eigi að afla þeirra tekna sem þeir eru alls ekki tregir til að útskýra hvernig þeir ætla að eyða.

Hvað varðar það að kosningastefna þurfi að fara til fjármálaráðs svo að hún verði gild; mér finnst hugmyndin athyglisverð. Í anda málfrelsis og slíks veit ég ekki hvernig hægt er að segja að kosningastefnuskrá sé ekki gild. En ef hún fengi stimpil frá fjármálaráði yrði náttúrlega augljós munur (Forseti hringir.) á kosningastefnu flokka sem það gerðu og hinna sem gerðu það ekki í augum kjósenda. (Forseti hringir.) Mér finnst hugmyndin allrar athygli verð.