146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[12:31]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það ríkir engin þórðargleði í landinu nú þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hefur verið gerð opinber. Miklu fremur hryggð og dapurleiki vegna þess að grunurinn var staðfestur. Auðtrúa, hrekklaus þjóð var blekkt. Það gerðu harðsvíraðir svindlarar, viljandi og einbeittir.

Við höfum alist upp og búið við fágæt lífsgæði á Íslandi, traust í samskiptum manna, óformlegir samningar, heiðursmannasamkomulag og stuttar boðleiðir hafa verið aðalsmerki landans. Við höfum lengi haldið í heiðri að orð skuli standa. Það á ekki við um þessa snaggaralegu, velsnyrtu menn í vönduðum fötum sem buðu af sér sæmilegan þokka, boðnir og búnir.

Það var ekki endilega greið leið að ná þeirri niðurstöðu að grandskoða þetta ferli. Úrtöluraddirnar voru æði margar, kannski meira úr einni átt en annarri. Skýrslan varpar sínu ljósi á ástæður þess. Þökk fyrir hana.

Sá sem farið hefur í fylkingarbrjósti upplýstra efasemdarmanna, hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, hefur greint frá því sjálfur að hann mætti tortryggni á sinni eyðimerkurgöngu, áhugaleysi og jafnvel spotti á æðstu stöðum. Þá hefur einnig mátt á honum skilja að það sé mjög sérkennilegt og ótrúlegt hve einbeittur vilji sumra ráðamanna á þessum tíma var að trúa einni útgáfu sannleikans sem borinn var á borð af meintum fjármálasnillingum og talsmönnum þeirra. Þar var fagmennskan fyrir borð borin.

Fólkið í landinu sem berst í bökkum daglega í amstri sínu er agndofa, ekki endilega reitt lengur, jafnvel meira sorgmætt, því að margir upplifa að hugtakið drengskapur, sem flestum okkar er innrætt að hafa í hávegum, hafi verið saurgað. Það skilur eftir ör. Drengskapur og heiðarleiki eru dýrmæt gildi í fari hvers manns. Það hafa þeir glæframenn sem hér eiga í hlut sannarlega ekki sýnt. Við trúðum því jafnvel á tímabili að þetta væru máttarstólpar samfélagsins en reyndust ótíndir skúrkar og eru nú ærulausir menn. En þeir eru ekki af baki dottnir.

Nú ríður á að endurtaka ekki sömu mistökin en hundakúnstum er beitt. Öllum þeim brögðum sem til eru í bókinni. Ný bankasala má ekki ganga fram fyrr en ljóst er hver raunverulegur kaupandi er. Það er krafan. Hversu mörg þurfa axarsköftin að vera? Margir segja einmitt að úr því sem komið er sé ekkert að gera, við verðum bara að læra af þessu. Hvað getum við lært? Er hægt að treysta nokkrum manni í viðskiptum?

Við megum aldrei falla í þá gryfju að treysta ekki fólki. Við eigum að ástunda heiðarleg samskipti öllum stundum, ekki síst hér á þingi þar sem traust á í vök að verjast. En því miður er ýmislegt sem bendir til að ekki séu öll kurl komin til grafar í þessu og tengdum málum. Við skulum vona að við upplifum aldrei aftur þá niðurlægingartíma sem glysárin fyrir hrun báru með sér. (Forseti hringir.) Þegar sást hér varla til sólar um miðjan dag fyrir einkaþotum og einkaþyrlum sveimandi yfir völlunum með eintóma snillinga um borð. Heimsfrægir poppsöngvarar komu hér og sungu í prívatpartíum fáein lög. Við heyrum tregafulla tóna Eltons Johns deyja út í fjarska. Umhugsunarvert í ljósi framvindunnar. Með leyfi forseta:

„Goodbye, yellow brick road.“