146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[12:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað þurfum við meiri tíma til að ræða þetta og getum kannski að einhverju leyti gert það í umræðunni hér á eftir. Varðandi það samhengi hlutanna að hægri sinnuð ríkisstjórn, últrahægrisinnuð ríkisstjórn eins og sú sem við höfum í dag, sem vill alls ekki efla tekjuöflunarkerfi ríkisins, veifar auðvitað þessari gulrót, að hægt sé að gera þetta allt svo þægilegt og auðvelt og borga niður skuldir og hvaðeina með því að selja ríkiseignir. Tímabundið geta menn auðvitað gert þetta. Annaðhvort fleytt sér á froðutekjum meðan hagsveiflan er uppi og/eða verið að selja smátt og smátt fjölskyldusilfur þjóðarinnar, verðmætar sameignir, og sleppa því að afla tekna á móti í staðinn á meðan. En hvar endar það þegar ekkert verður eftir til að selja? Við þekkjum dæmi um sveitarfélög sem hafa farið þessa leið og standa ekki mjög vel þegar þau eiga ekki neitt nema skuldir. Það þarf ekki að fara langt í burtu frá Reykjavík til að finna dæmi um slíkt.

Í tilviki Keflavíkur, að því marki sem þar verða áfram mikil umsvif og miklar tekjur, væri mjög handhægt að veita einhverjum hluta þess hagnaðar í gegnum ríkið sem arðgreiðslum frá þeirri starfsemi, gegnum ríkissjóð og út í rekstur innanlandsflugskerfisins. Það getum við gert. Þá gætum við gert miklu betur við þann svelta rekstur sem er viðhald flugvalla og innanlandsflug sem ekki hefur afkomugrundvöll.

Í tilviki Landsvirkjunar er þetta enn augljósara. Fyrirtækið sjálft segist munu geta frá og með næstu árum borgað eiganda sínum, íslensku þjóðinni, tugi milljarða í arð á ári. Við getum fengið góðan arð af fyrirtækinu, átt hin verðmætu virkjunarréttindi í sameign og átt fyrirtækið áfram. Í staðinn fyrir að selja það í eitt skipti fyrir öll. (Forseti hringir.)

Það þarf nú varla vitnanna við í því tilviki, svo augljóst er það.