146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Ég er alveg sammála því að ef það á að koma til sölu á eignarhlut í bönkum á auðvitað að vera búið að tryggja að allt það söluferli sé skothelt. Við skuldum þjóðinni það hreinlega. Annað bæri vott um að við lærðum ekkert af sögunni. Þó svo að sú sem hér stendur sé ekki sagnfræðingur veit hún engu að síður að það er mikilvægt að læra af sögunni.

Það vita allir að það er það sem þjóðin vill. Maður þarf ekki að hafa fylgst mikið með samfélagsumræðunni undanfarinn sólarhringinn til að láta sér detta eitthvað annað í hug.

En mig langar að ítreka aðeins spurninguna sem ég varpaði fram í fyrra andsvari, hvort það sé þess vegna ekki hættulegt að fara þá leið sem stendur skýrum orðum í nefndaráliti meiri hlutans, að vera búin að festa sig í því að til þess að stóra planið um hvernig á að reka samfélagið gangi upp verðum við að geta selt banka og þess vegna aðrar eignir. Nú vil ég frekar kenna mig við sósíalisma en kapítalisma en ég þykist þó vita það mikið um hvernig kapítalisminn virkar að til þess að fá sem hæst verð fyrir eignina þína megir þú ekki vera algerlega rígbundinn kaupandanum og upp á náð hans kominn um að hann kaupi eitthvað af þér.

Er þetta ekki bara arfaslæm pólitík sem hér er verið að boða, burt séð frá öðrum þáttum sem við getum svo verið ósammála um?