146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:36]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er sammála honum í því að tilraunin muni mistakast ef samstarfið verður ekki meira en nú er. Það veit ekki á gott að ætla að fara í svona viðamikla tilraun sem byggir ekki á meira samstarfi en þetta.

Hv. þingmaður kom ágætlega inn á í máli sínu þá útgjaldareglu sem sett er aukreitis inn í fjármálastefnuna. Ég veit að hv. þingmaður þekkir vel til í sveitum landsins. Mig langar að spyrja hv. þingmann akkúrat út í þetta. Í meirihlutaálitinu er talað um að jákvæð afkoma grundvallist nær alfarið á þeirri forsendu að hagvöxtur haldi áfram út spátímabilið og það væri lengsta samfellda hagvaxtarskeið í nútímasögu landsins. Einhvern tíma hefðu ættingjar mínir í sveitunum sagt mér að það væru ekki góð búsforráð að gera bara ráð fyrir því að alltaf spretti grasið betur á næsta ári og það verði sett nýtt met í grassprettu á hverju einasta ári. Það væri frekar sniðugt að gera ráð fyrir að hafa smá borð fyrir báru, svo að ég blandi sjómannamálinu inn í þetta líka.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þetta. Hann þekkir lög um opinber fjármál betur en ég. Hvaða tilgangi getur sú regla þjónað, að koma henni aukreitis hér inn? Hv. þingmaður sagði að í raun þýddi þetta að við myndum ekki fara í neina innviðauppbyggingu, ef ég skildi hann rétt. Erum við að horfa á að ekkert verði af fögrum loforðum um innviðauppbyggingu eða að af þeim verði ekki nema til komi fjármagn einkaaðila?