146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Nú er það þannig, eins og við þekkjum öll, að þessi stefna er til fimm ára. Sú áætlun sem er til fimm ára er endurskoðuð á hverju ári, síðan er fjárlagavinnan, þessi hefðbundna, að hausti til og fjárlög eru afgreidd fyrir áramót. Hvernig sér hv. þingmaður að þingmenn geti haft áhrif til breytinga við fjárlagagerð þegar búið er að múra okkur inn í ákveðinn farveg? Hafa þingmenn, löggjafinn, möguleika á að gera breytingar? Hvert er vald löggjafans innan stjórnarskrárinnar til að gera það? Er fjárlagavaldið ekki hér á Alþingi? Telur hv. þingmaður að þingmenn í fjárlagagerð og í fjárlögum — í vinnu sem fer fram á haustin, en fjárlög eru síðan afgreidd fyrir jól eða fyrir áramót — eigi að taka til hendinni og gera breytingar ef þörf er á og afla tekna og bæta í þar sem brýn verkefni þurfa á meira fjármagni að halda?