146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

búsetuskerðingar almannatrygginga.

311. mál
[16:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og fagna því að ráðherra telji málið vera a.m.k. þess eðlis að það verði að taka til skoðunar. Ég hef áhyggjur af því samt að þetta verði sett inn sem hluti af skoðun eða breytingum varðandi örorkulífeyriskerfið. Ég er hrædd um að þetta geti orðið olnbogabarn í slíkri vinnu vegna þess að við vitum að það eru önnur atriði til að mynda hvað varðar starfsgetumat sem eru líkleg til þess að yfirgnæfa umræðuna um þetta. Ég held að þetta mál þurfi að fá sérstaka áherslu og sérstakan fókus svo að því verði ekki hreinlega ýtt til hliðar einu sinni enn.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir að það eru fleiri þættir í heildaralmannatryggingakerfi landsins sem skipta máli og hann nefnir félagslega aðstoð sveitarfélaga. En þá verðum við að muna að hún er hugsuð sem skammtímalausn. Hún er ekki hugsuð sem framfærsla út ævina, eins og þessi hópur þarf á að halda. Þannig að aftur finnst mér vera rök fyrir því að skoða þessi mál alveg sérstaklega og vil því hvetja hæstv. ráðherra til að gera eitthvað sérstaklega úr því.

Varðandi spurningu tvö um reglugerðina þá get ég ekki lesið reglugerðina öðruvísi en svo að það hafi bara verið ákvörðun að nota hlutfallsútreikning á sérstöku framfærsluuppbótina en það þurfi í rauninni ekki að gera það, þannig að ef það væri pólitískur vilji til að framkvæma þetta öðruvísi, þótt það kosti meiri peninga, þá væri alveg svigrúm til þess innan reglugerðarinnar.