146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

ráðstafanir gegn verðhækkun íbúðarhúsnæðis.

334. mál
[17:01]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, fyrir fyrirspurnina og hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég tek undir með hæstv. ráðherra og reyndar fyrirspyrjanda að þetta er eitt af allra stærstu málum sem við þurfum að takast á við. Það er engin ein lausn á málinu. Ég held að hæstv. ráðherra hafi svo sem alveg gert sér grein fyrir því.

Það hvernig við byggjum upp og hvernig lóðaframboð er verður, svo dæmi sé tekið, að haldast í hendur við þau loftslagsmarkmið sem við höfum sett okkur um hvort við ætlum að þétta byggðir eða dreifa úr eða ekki. En sú tillaga sem fyrirspyrjandi spyr út í er aðgerð sem gæti komið til áhrifa nokkuð fljótt.

Sjálfur hef ég velt því fyrir mér með sérstaka hópa sem fara inn á almenna markaðinn, ég nefni t.d. öryrkja þar sem Brynja er, hússjóður Öryrkjabandalagsins, hvort ríkisstjórnin ætti ekki einfaldlega að lána viðkomandi hússjóði fjármuni á kostnaðarverði til að reisa fyrir sérstakan hóp sem ekki tengist hinum almenna markaði. Þá væri hægt að hleypa ákveðnu lofti úr þeirri bólu sem (Forseti hringir.) er klárlega að myndast í eftirspurn og hægt að réttlæta slíkt sem sértækar aðgerðir. Ég ætla að gefa þessa hugmynd hérna.