146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

376. mál
[20:12]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar vegna innleiðinga á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins nr. 75/2010, um losun í iðnaði. Samhliða eru lagðar til breytingar varðandi útgáfu starfsleyfa, m.a. með hliðsjón af innleiðingu tilskipunarinnar. Frumvarpið var samið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi og Umhverfisstofnun. Frumvarpið fór auk þess í opið umsagnarferli á netinu.

Tilskipun um losun í iðnaði sameinar sjö eldri EES-gerðir um samþættar mengunarvarnir. Allar nema ein hafa verið teknar upp í EES-samninginn og innleiddar hér á landi. Þessi nýja tilskipun felur í sér endurútgáfu á uppfærslu á viðkomandi EES-gerðum þar sem tilgangurinn er að auka skýrleika reglnanna. Það er sem sé tilgangur þessa frumvarps.

Kveðið er á um samþættar aðferðir við mengunarvarnir sem varða tiltekna mengandi starfsemi þar sem gengið er lengra en í eldri tilskipunum. Tilskipunin byggist á heildstæðri nálgun þar sem taka skal tillit til umhverfisins í heild, þ.e. að draga úr losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg við meðhöndlun úrgangs og gera kröfur um orkunýtni og slysavarnir.

Meðal helstu nýmæla tilskipunarinnar eru ákvarðanir um bestu aðgengilegu tækni, eða BAT, og gildi þeirra með tilkomu svokallaðra niðurstaðna um bestu aðgengilegu tækni, þ.e. BAT-ákvarðanir. BAT-ákvarðanir eru viðmið sem gert er ráð fyrir að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins setji með sérstökum gerðum í samráði við aðildarríkin og haghafa varðandi tiltekna starfsemi. Samkvæmt tilskipuninni skal vísa beint til viðeigandi BAT-ákvarðana í starfsleyfum fyrirtækja.

Í tilskipuninni er rík áhersla lögð á tengsl við tilskipun 2004/35/EB um umhverfisábyrgð, til að mynda með áherslu á vinnslu og skil á grunnskýrslum um ástand umhverfisins. Þannig er gengið út frá því að við lok rekstrar hjá tilteknum fyrirtækjum séu gæði umhverfis endurheimt, t.d. skal iðnaðarlóð skilað í sama ástandi og grunnskýrslan segir til um.

Með frumvarpinu eru gerðar veigamiklar breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir vegna innleiðingar tilskipunarinnar. Lagt er til að helstu efnisatriði verði tekin upp í þau lög og verði síðan nánar útfærð í reglugerð á grundvelli laganna.

Í frumvarpinu er einnig lögð til breyting hvað varðar útgáfu starfsleyfa með hliðsjón af innleiðingu tilskipunar um losun í iðnaði og stefnu ríkisstjórnarinnar um bætt viðmót og aðgengi að stjórnsýslu. Mikilvægt er að endurskoða og leggja mat á þörfina fyrir að tiltekin starfsemi sé háð starfsleyfi. Í því samhengi þarf að skoða hvort aðrar leiðir en leyfisveitingar séu færar til að ná fram markmiðum um mengunarvarnir og hollustuhætti, svo sem skráningarskylda varðandi tiltekna starfsemi. Í frumvarpinu er þannig lagt til að dregið verði úr vægi starfsleyfisskyldu og miðað við að hún verði einungis til staðar þegar þess er þörf þegar litið er til umfangs og eðlis tiltekinnar starfsemi. Gert er ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að kveða á um í reglugerð að tiltekin starfsemi skuli háð skráningarskyldu í stað starfsleyfis. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að ráðuneytið í samvinnu við helstu haghafa fari yfir og meti í hvaða tilvikum skráningarskylda geti komið í stað starfsleyfis.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að allri starfsleyfisútgáfu verði sinnt af Umhverfisstofnun frá og með 1. janúar 2019. Þetta er gert til að tryggja að sömu kröfur verði gerðar til sambærilegrar starfsemi um allt land. Lagt er til að Umhverfisstofnun taki við skráningum frá rekstraraðilum um rafræna gátt og upplýsi þá um þær reglur sem þeir þurfa að uppfylla. Gera má ráð fyrir að þau starfsleyfi sem gerð verði skráningarskyld verði einna helst leyfi sem í dag eru útgefin af heilbrigðisnefndum, t.d. heimagisting.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.