146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Í störfum þingsins í dag óskaði ég eftir að eiga orðastað við hv. þm. Theodóru Sigurlaugu Þorsteinsdóttur og vil ég byrja á að þakka henni fyrir að verða við þeirri beiðni minni. Erindið varðar orðastað sem hv. þingmaður átti við samflokksmann minn, hv. Björn Leví Gunnarsson, þann 28. mars síðastliðinn. Í það skipti var hv. þingmaður beðinn um að upplýsa þingið um áherslur, eða skort á áherslum Bjartrar framtíðar í fjárlagalagfæringum í desember síðastliðnum, en hún svaraði því til, með leyfi forseta:

„Áskorunin og markmiðið var að ná fram sátt og sameiginlegri niðurstöðu í fjárlaganefndarvinnunni og með þær áherslur að breytingartillögurnar myndu ríma vel við liðna kosningabaráttu og að mínu mati tókst það.“

Ég spyr hv. þingmann hvernig hún geti haldið þessu fram vegna þess að enginn flokkur sem á fulltrúa á Alþingi gekk til kosninga án loforða um miklar umbætur og aukið fé til heilbrigðismála. Því er óskiljanlegt að Björt framtíð hafi mætt andstöðu við eigin loforð sem rímuðu vel við aðra flokka.

Í ræðu sinni sagði hv. þingmaður einnig, með leyfi forseta:

„Ég hef ekki trú á vinkilbeygjum. Sveitarfélögin gera það ekki. Það líður a.m.k. ár þar til það hefur raunveruleg áhrif á þau störf. Það er mín sýn og sú sýn mín rímar við markmið fjármálaáætlunar þar sem eru samtvinnaðar stefnumarkandi áætlanir og fjármálaáætlanir á skilvirkari hátt en áður.“

Ég átta mig ekki á því hvað hér er átt við, frú forseti. Kosið var að hausti. Fyrsta hlutverk þingsins var að vinna fjárlög. Skil ég hv. þingmann rétt að hún telji þingmenn ekki eiga að standa með kosningaloforðum sínum frá fyrsta degi hafi þau verið í andstöðu við meiri hluta fram að kosningum?

Að lokum sagði hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Í upphafi var himinn og haf á milli flokka og mér leist ekki vel á að fara í gríðarlega mikla útgjaldaaukningu vegna þess að það er mín sýn að við eigum ekki að taka vinkilbeygju í hvert sinn sem ný ríkisstjórn tekur við. Það skapar ójafnvægi, uppsveiflu, hrun og ástand eins og við sjáum nú á Akranesi.“

Nú hef ég heyrt einkennilegar og allt aðrar hugmyndir um að fíkn almennings í flatskjái hafi keyrt landið í þrot árið 2008, en (Forseti hringir.) ég hef ekki áður heyrt að vel fjármagnað heilbrigðiskerfi geti valdið því að kvótahafi hljóti að segja upp fjölda starfsfólks í landvinnslu. Ég hefði áhuga á að fá (Forseti hringir.) nánari skýringu hjá hv. þingmanni á þessum anga stöðunnar á Akranesi.