146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

skattar, tollar og gjöld.

385. mál
[15:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að hér sé hv. þingmaður að vísa til pallbílanna. (Gripið fram í.) Já, en þetta er ákvæðið um pallbílana, tel ég. Því er til að svara að fallið hefur úrskurður um þessa bíla þannig að endurgreiðslurnar eru ekki vegna laganna heldur vegna úrskurðar yfirskattanefndar sem telur að ákvæðin eins og þau hafa verið túlkuð af tollyfirvöldum séu svo óljós að lögð hafi verið of há gjöld á þá sem hér hafa verið að flytja inn slíka bíla eða kaupa þá. Þetta er því ekki afleiðing af frumvarpinu heldur er frumvarpið til þess að bregðast við þeim úrskurðum sem fallið hafa. Ég er sammála því að það er ófært að lög séu svo óskýr að þeir sem eiga að framkvæma þau verði að gera handahófskennt mat. Ég tek undir það með hv. þingmanni að mjög fróðlegt væri að vita hvað talan „verulegur“ eða „umtalsverður“ þýðir. Í gær fengum við skilgreiningu á hvað „dropi í hafið“ þýðir, þannig að það eru ýmis hugtök sem eru skýrð í þingsal og verður gaman að eiga það síðar meir.