146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafði hugsað mér að falla frá seinna andsvari enda er þetta nú að sumu leyti kannski svolítið öfugt andsvar. En ég vil gjarnan upplýsa að í fjármálaráðuneytinu erum við með áform um að fara í hagræðingarátak þar sem við munum hjálpa ráðuneytum og stofnunum þeirra að standast þessa aðhaldskröfu og líka almennt að fara yfir hvernig við getum veitt þá þjónustu sem við veitum nú þegar fyrir minni pening eða veitt meiri þjónustu fyrir þá peninga sem við höfum nú þegar til ráðstöfunar. Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir skattgreiðendur á hverjum tíma að farið sé yfir þetta. Jafnframt er mikilvægt að við förum yfir það hvort sú þjónusta sem veitt er sé alltaf nauðsynleg þótt hún kunni að hafa verið það einhvern tíma. Ég tel mikilvægt að menn spyrji sig þessara spurninga. Við í fjármálaráðuneytinu munum reyna eftir megni að aðstoða önnur ráðuneyti við akkúrat það sem hv. þingmaður nefndi.