146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

um fundarstjórn.

[12:07]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég má til með að koma hér upp og taka undir það sem aðrir hv. þingmenn hafa sagt varðandi fjarveru tveggja hæstv. ráðherra í þessum mikilvægu umræðum. Ég verð að gera athugasemd við það. Þó að vel geti verið að lögbundnar útskýringar séu á því að hæstv. ráðherra komist ekki hingað í dag þá eru þessir málaflokkar þess eðlis — við erum að tala um dómsmálaráðuneytið og við erum að tala um utanríkisráðuneytið — að mér þykir ekki stætt á öðru en að staðgengill þessara hæstv. ráðherra verði enginn annar en forsætisráðherra. Þá væri mögulega hægt að hafa vitrænar samræður um þessi málefni, einfaldlega út af því að hæstv. forsætisráðherra á náttúrlega að geta borið ábyrgð á öllum öðrum málum ríkisstjórnarinnar. Mér þykir mjög einkennilegt, ef satt skal segja, að hæstv. ferðamálaráðherra sé kominn hér í stað hæstv. dómsmálaráðherra, þrátt fyrir að eflaust séu einhverjar góðar útskýringar á því. Mér þætti eðlilegra að hæstv. forsætisráðherra myndi svara fyrir þessa málaflokka.