146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:19]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Jú, ég get tekið undir að það kallar á mann hvort við höfum gætt nægilega að umgjörðinni. Á þinginu verða menn kannski að líta í eigin barm og spyrja sig: Er þörf á frekari styrkingu á nefndasviðinu vegna efnahagsmála með því að ráða t.d. inn hagfræðinga? Að hve miklu leyti á að auka svigrúm þingsins til að leita sér sérfræðiaðstoðar? Ég minnist þess að þegar ég var nýkjörinn á þing og þurfti að leita út fyrir veggi þingsins með útreikninga í tengslum við lífeyrismál var hnippt í mig og sagt að ég þyrfti að fara varlega vegna þess að heildarfjárheimildir þingsins það árið til að leita út fyrir veggi þingsins eftir ráðgjöf voru innan við 3 milljónir á ári fyrir allar nefndir, allt nefndasviðið. Þessu höfum við eitthvað breytt og aukið svigrúm þingsins til að leita ráðgjafar en eftir situr spurningin hvort við þurfum að halda áfram að byggja upp styrkleika á nefndasviðinu á sviði efnahagsmála. Ég myndi styðja það. Ég hef ávallt talað fyrir því að þingið þurfi að vera öflugt og tek fagnandi umræðu um að þingið eigi að vera vel í stakk búið í nefndastörfunum til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald.

Þegar kemur að fjármálaráðinu held ég að þar gætu svipuð sjónarmið vel átt við. Við erum aðeins að feta okkur áfram í þessu eitt skref í einu. Maður þarf að hlera það innan úr fjármálaráðinu. Sú leið var farin að þessu sinni að kalla ráðið til snemma í ferlinu, þ.e. áður en endanleg áætlun var fullbúin, til að vinna sér inn tíma. Ég tek eftir að ráðið gat engu að síður, þrátt fyrir mikla tímaþröng, skilað af sér þó nokkuð umfangsmikilli og nákvæmri vinnu sem mér finnst hafa sannað (Forseti hringir.) ótvírætt gildi sitt.