146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:03]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það virðist vera einhver misskilningur gagnvart ástæðunni fyrir því að ég tek til máls undir liðnum um fundarstjórn forseta. Mér finnst ekkert athugavert við það að þingmenn vilji ekki tjá sig. Það er þeirra réttur. Þegar við erum hins vegar búin að semja um ákveðinn tíma og þeir flokkar vilja ekki nýta hann ætti að vera möguleiki á að leyfa þingmönnum í öðrum stjórnmálaflokkum að nýta þann tíma. Sem dæmi hefði ég gjarnan viljað spyrja hæstv. forsætisráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar gegn ofbeldi í samfélaginu en ég komst ekki að.

Sama varðandi menntamálaráðherra, það eru svo margvíslegar spurningar sem maður hefði getað beint til hans en við vorum bara með eitt „slott“. Það snýst einfaldlega um að ef menn hafa ekki í hyggju að nýta sér sinn tíma ættu þeir að leyfa öðrum þingmönnum að hafa möguleika á því. Það er það sem ég var búin að ræða við forseta og skilaboðin voru þau að það væri ekki möguleiki af því að það væri búið að semja um þetta með þessum hætti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)