146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:38]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Mér leikur enn forvitni á að vita hvers vegna viðmiðið eða markmiðið með sjálfstæðri nefnd um störf lögreglu sé einungis að hún eigi að starfa í samræmi við lög, hvort við höfum ekki aðeins meiri metnað þar.

Hvað varðar hraðamælingar lögreglu finnst mér skrýtið að þar sé enga kostnaðargreiningu að finna. Það hlýtur að liggja fyrir einhvers konar leið til að meta hvað það muni kosta að setja svona mælitæki í lögregluborð. Ég skil ekki af hverju ekki er eina einustu tölu að finna í hvorugum kafla er snýr að hæstv. dómsmálaráðherra — afsakið, hugsanlega tvær tölur í öllum þessum aðgerðaáætlunum sem er þar að finna. Það er ekki eina einustu kostnaðargreiningu að finna og mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna svo er.

Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra út í ákæruvaldið. Í þessum kafla kemur fram að búist sé við auknu álagi á ákæruvaldið vegna tilkomu Landsréttar og til standi að ríkissaksóknari verði með aukið eftirlit með hlustunum og sérstökum rannsóknaraðgerðum. En eins og með aðra liði fylgir engin kostnaðaráætlun því markmiði, þótt ég sjái af þessu skjali á bls. 186–187 að til standi að bæta við tveimur saksóknurum á embætti ríkissaksóknara til að bregðast við Landsrétti.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hann virkilega að það sé nóg að bæta við tveimur saksóknurum til að mæta bæði þeim markmiðum að sinna störfum í Landsrétti sem og að minnka málafjölda, eins og eitt markmiðið segir til um, á hvern saksóknara úr 35 málum í 25 mál? Dugir virkilega til að bæta við tveimur saksóknurum í þetta?