146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:59]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Virðulegi forseti. Á málefnasviði dómsmálaráðherra eru margir og mikilvægir málaflokkar, eins og fram hefur komið, sem varða réttaröryggi borgaranna, svo sem dómstólar, lögregla, ákæruvald, Landhelgisgæsla, Almannavarnir, leit og björgun, svo að maður nefni nú eitthvað. Mig langar aðeins að halda áfram að ræða um hið nýja dómstig, Landsrétt, eins og aðrir hv. þingmenn hafa aðeins komið inn á. Landsréttur tekur til starfa um næstu áramót og þegar er hafinn undirbúningur að því og á þessu ári er tilteknum upphæðum varið til þess.

Það er mjög mikilvægt að vel takist til þegar nýtt dómstig fer af stað og ekki síður að hin nýja stofnun, sem er kölluð Dómstólasýslan, sem hefur yfirumsjón með stjórnsýslu dómstólanna, sé í góðu standi. Ég leyfi mér, með leyfi forseta, að vitna hér aðeins í það sem segir á bls. 116 í fjármálaáætluninni þar sem verið er að tala um að nauðsynlegt sé að þar sé vel menntað og hæft fólk:

„Fyrir fram má telja æskilegt að þar starfi lögfræðingur, fjármálastjóri, upplýsinga- og skjalastjóri og tölvunarfræðingur.“

Síðan kemur: „Svigrúm fjármálaáætlunar er ekki nægilegt til að fjármagna slík áform.“

Þetta veldur manni áhyggjum. Þess vegna hlýt ég að spyrja ráðherrann hvernig eigi að bregðast við þessu. Er ráðherrann sannfærður um að þeir fjármunir sem eru settir í þetta nýja millidómstig og hina nýju Dómstólasýslu dugi til að þessar nýju mikilvægu stofnanir fái farsæla byrjun og geti sinnt sínu mikilvæga hlutverki?