146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:37]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Þetta er mjög áhugaverð umræða þegar kemur að fæðingarorlofinu. Ég hef lagt höfuðáherslu á það í þessu starfi, í þessari forgangsröðun, að endurreisa einmitt það fæðingarorlofskerfi sem hefur verið talað um sem eitt best verkandi fæðingarorlofskerfi, bæði á Norðurlöndunum og þótt víðar væri leitað, þar sem er ein mest þátttaka feðra í fæðingarorlofi, ein lengsta orlofstaka, en það kerfi hefur látið verulega undan síga á undanförnum árum. Mjög brýnt er að endurreisa það. Þetta er bæði, eins og ég sagði, hinn sjálfsagði réttur barns til umgengni við báða foreldra, en ekki síður mjög mikilvægt í jafnréttismálum á vinnumarkaði. Þess vegna held ég að það sé brýnasta forgangsatriðið. Það er auðvitað svo að í útgjaldaaukningu ríkisfjármálanna, það hefur þegar verið nefnt í umræðunni hér í dag, að útgjöld milli áranna 2016 og 2017 eru að aukast um 53 milljarða að raungildi, útgjöld inn á næsta ár eru að aukast umtalsvert til viðbótar einmitt út af t.d. verulegum kjarabótum til handa öryrkjum og ellilífeyrisþegum og það þrengir auðvitað stakk okkar að öðru leyti. Þess vegna verðum við að forgangsraða í þessum efnum. En að sjálfsögðu munum við horfa til þess hvernig við gætum styrkt þetta kerfi enn frekar skapist til þess frekara svigrúm.

Þegar kemur einmitt að kjörum örorkulífeyrisþega þá er það alveg rétt að í þessari áætlun er gert ráð fyrir að ráðist verði í sambærilega kerfisbreytingu og gerð var á síðasta ári þegar kemur að ellilífeyri á árinu 2019, en fram að því er verið að hækka hins vegar lágmarksgreiðslur til öryrkja með sambærilegum hætti og til aldraðra. Það er auðvitað það sem vigtar þyngst inn í kostnaðaraukninguna á þessu sviði á næsta ári frá áramótunum 2018 þegar lágmarksgreiðslur verða hækkaðar í 300.000 kr.