146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:44]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég veit hver framlögin eru á þessu ári sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Ég var að velta því fyrir mér hver þau yrðu á áætlunartímanum og þá við lok hans. Við erum í sögulegu lágmarki með framlög til vegamála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Hæstv. ráðherra talar um að horfa raunsætt á hlutina og spila úr því sem við höfum milli handa. Þegar hæstv. ríkisstjórn er ekki tilbúin til að afla nauðsynlegra tekna til að fara í marglofaða innviðauppbyggingu þurfa menn náttúrlega að leita skapandi leiða eins og hæstv. ráðherra talar um.

Í fjármálaáætluninni segir um samgöngumál, með leyfi forseta:

„Aukin áhersla verður í samgöngum á öryggis- og umhverfismál, einkum losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum, auk stöðugrar vinnu við að stytta leiðir, gera mannvirki öruggari, auka greiðfærni með bættri þjónustu til að bæta búsetugæði og skapa betri aðstæður fyrir atvinnulíf. Þá er leitast við að ná markmiðum um orkuskipti þannig að endurnýjanleg, innlend orka nýtist sem mest og með stuðningi við almenningssamgöngur á lofti, láði og legi, auk þess að auka fjölbreytni í vali ferðamáta innan þéttbýlis m.a. með sérreinum og þátttöku í stígagerð.“ — Gott ef það verður ekki bara malbikuð hraðbraut til himna, þetta er svo fallegt allt saman.

Telur hæstv. ráðherra að hægt sé að fara í allar þær framkvæmdir sem hér er lofað með þeim fjármunum sem er að finna til málaflokksins í fjármálaáætlun? Ég talaði hér um 7 milljarða. Þar er ég að taka heildarrammann utan um málasvið hæstv. ráðherra. Inni í því eru fjarskiptamál og margt fleira. Þegar kemur að samgöngumálum einum og sér erum við að tala um að ramminn sé 5 milljörðum hærri við lok tímabilsins en við upphaf þess.

Ein beinskeytt spurning í blálokin: Verður samhliða Dýrafjarðargöngunum farið í vegabætur yfir Dynjandisheiði?