146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:01]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka ráðherranum fyrir þessi svör. Það eru auðvitað mörg önnur verkefni í samgönguáætlun en í vegakerfinu. Mér eru þar auðvitað mjög hugleiknar hafnir landsins og hef velt fyrir mér hvort ekki sé nauðsynlegt, í ljósi þess að við erum að samþykkja nýja Vestmannaeyjaferju í þessari samgönguáætlun sem samþykkt var af þinginu, að láta fara fram frekari rannsóknir við Landeyjahöfn til að tryggja betur aðgang skipsins þar allt árið. Ég spyr hvort ráðherrann sé ekki sammála mér í því að við þurfum að skoða það.

Nákvæmlega það sama er að gerast á Höfn í Hornafirði. Þar er mikið landris og flotinn stækkar og lífæð hafnarinnar þar er líka til vandræða. Það vantar eins og víða almennt meira fé í hafnir landsins. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við skoðum það.

Mig langar líka að nefna, vegna þess að ég heyrði ráðherrann segja á fundi að Suðurkjördæmi væri álíka stórt og Danmörk og þar búa 6 milljónir manns, í Suðurkjördæmi búa 50 þúsund manns og þar er mikið, langt og erfitt vegakerfi, hvort við Íslendingar gleymum því ekki stundum hvað við búum við góðar aðstæður miðað við hvað við erum fámenn í stóru landi. Mig langar að spyrja hvort það sé ekki tröllaukið verkefni eins og hér hefur komið fram að laga þetta kerfi og hvort ráðherrann sé ekki einarður í því að við höldum þeirri vegferð áfram og hann muni skila okkur tillögum um það þegar vorið er komið.