146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:25]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Ég er eins og glöggir átta sig á ekki alveg hlutlaus í þessum málum hér en ég verð samt að segja það að mér finnast ferskir vindar hafa blásið um ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar eftir að hæstv. ráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók þar við lyklavöldum. Mig langar að nota fyrri hálfleik minn hér til að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um sjávarútvegsmál, nánar tiltekið til að ræða gjald sem notendur greiða fyrir aðgang að þeirri sameiginlegu auðlind sem fiskimiðin okkar eru.

Þegar rýnt er í fjármálaáætlunina, eða í kafla um markmið, mælikvarða og aðgerðir, segir þar um markmið nr. 3, með leyfi forseta:

„Markmiðið felur í sér að stjórnvöld stuðli markvisst að aukinni sátt um gjaldtöku fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda hafsins.“

Og mælikvarðinn, aftur með leyfi forseta:

„Hlutdeild samfélags í auðlindaarði í hlutfalli við afrakstur veiða.“

Nú er það svo, virðulegi forseti, að sjávarútvegurinn hefur staðið undir lífskjörum og aukinni hagsæld íslensku þjóðarinnar í gegnum tíðina og gerir enn. Breytingar á síðustu árum og áratugum hafa gert útgerðina að öflugri og sókndjarfri atvinnugrein.

Sérstaða Íslands er ekki hvað síst fólgin í því að hér er sjávarútvegur ekki niðurgreiddur af almannafé. Það er við hæfi að nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir að sú sérstaða skuli enn þá vera fyrir hendi.

Sá árangur sem hefur náðst er verulega til eftirbreytni, bæði hér á landi hvað varðar aðrar atvinnugreinar og fyrir sjávarútveg annarra þjóða. Nú er komið að því fyrir sjávarútveginn að taka næsta skref, mikilvægt skref, og það er að fullorðnast í alvöru.

Ráðherra hefur boðað skipun nefndar um gjaldtöku í sjávarútvegi. Sú fyrirætlan hefur að sjálfsögðu ratað hér inn í aðgerðaplan fjármálaáætlunarinnar, en ég er óþolinmóð kona og spyr því hæstv. ráðherra: Hvað er að frétta?