146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Fiskeldismálin eru risamál, þau eru spennandi mál og þau eru ákveðið tæki fyrir okkur Íslendinga til þess að treysta undirstöður okkar í samfélaginu. Það verður, eins og ég hef sagt, að gerast hægt og rólega með tilliti til lífríkis, náttúru, umhverfis og sáttar í nærsamfélaginu í kringum fiskeldisstöðvarnar, en líka í samfélaginu öllu. Ég er því miður bara búin að vera þrjá mánuði í embætti en ég ætla mér að ná þessum ramma. Ég hef þrýst á nefndina sem var tekin til starfa þegar ég byrjaði í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu til að skila í sumar. Hún á að gera það 30. júní. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við þurfum frekar að haska okkur en hitt í því að móta reglur, að þingið komi að því að móta reglur, hugsanlega rammalöggjöf um fiskeldismálin þar sem menn fá skýrt aðhald og eftirlit.

Ég vil undirstrika það sem við í Viðreisn höfum alla tíð sagt og það gildir í fiskeldi líka; þeir sem hafa aðgang að takmörkuðum auðlindum landsins eiga að greiða gjald fyrir það. Þeir eiga að greiða auðlindagjöld. Við þurfum hins vegar að taka tillit til þess varðandi fiskeldið að þetta er tiltölulega ung grein. Við ætlum að gera kröfur til fiskeldis. Það þýðir að við gerum kröfur til þess að þau fjárfesti í bestu tækjum, fjárfesti í rannsóknum og fjárfesti í innviðunum hjá sér líka. Það mun kosta ákveðinn kraft og ákveðið fjármagn.

Það er ekkert ólíklegt að við fetum svipaðar leiðir og Norðmenn sem tóku auðlindagjöld síðar þegar greinin var búin að festa sig betur í sessi, en þá ætlum við líka að læra af reynslu Norðmanna. Þá verða auðlindagjöld tekin og hluti af auðlindagjöldunum skilinn eftir heima í héraði til þess að menn verði sáttari við greinina sem slíka. Það felast mörg og mikil tækifæri í henni.

Við ætlum að losa okkur við þennan losaragang sem hv. þingmaður talaði um. Ég stefni að því að við verðum komin með skýra stefnu síðar á þessu ári.