146. löggjafarþing — 57. fundur,  7. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[00:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ef marka má orð hv. þm. Loga Einarssonar þá skapaði Guð í upphafi himin og jörð. Nokkrum dögum seinna skapaði hann mannfólkið og á áttunda degi kom svo fjármálaáætlun.

Við erum hér með fjármálaáætlun sem við leggjum fram með stolti. Það eru nefnilega ekki margar þjóðir sem geta lagt fram fjármálaáætlun sem felur í sér mikilsverða niðurgreiðslu á skuldum, skuldum sem nú þegar eru öfundsverðar vegna þess að þær eru svo lágar. En við ætlum að halda áfram að greiða niður skuldir á meðan við bætum í á öllum sviðum.

Margir þingmenn hafa spurt hér hvernig samfélag viljum við hafa á Íslandi? Hvernig samfélag ætlar núverandi ríkisstjórn að byggja upp? Það er samfélag menningar og lista. Við viljum samfélag velferðar. Við viljum samfélag þar sem allir fá að njóta sín, samfélag þar sem fólk vill búa. Og til þess að vera með slíkt samfélag verðum við að skapa hér skilyrði þannig að Íslendingar vilji búa hér, þannig að fólk vilji búa áfram á þessu landi.

Hafa lífskjörin verið alltaf sambærileg? Borgum við sömu vexti og í nágrannalöndunum? Nei, það gerum við ekki. Eitt af aðalbaráttumálum okkar núna er að skapa umhverfi þar sem vaxtastig verður sambærilegt við það sem er í útlöndum. Hvernig getum við gert það? Jú, með því að reka ríkið með afgangi, með því að sýna aðhald að því leyti að við skilum einhverju til framtíðarinnar. Við nýtum þann afgang til þess að borga niður skuldir, til þess að börnin okkar og barnabörnin erfi ekki skuldirnar. Er það samfélag sem okkur líst vel á? Ég held við getum öll sagt: Nei, það er ekki það sem við viljum. Við viljum gjarnan að börnin, barnabörnin og komandi kynslóðir geti horft á þetta og sagt: Við erfum ekki skuldafenið, við erum ekki að sökkva í skuldafenið, við getum haldið áfram að byggja upp.

Hvað er það sem kemur fram í þessari fjármálaáætlun? Hvaða áform eru það sem við sjáum? Við sjáum nýtt háskólasjúkrahús, hátæknisjúkrahús sem gjörbreyta mun allri aðstöðu til lækninga hér á landi. Það mun gjörbreyta því að hér vilja starfa í framtíðinni okkar bestu og færustu læknar. Þeir munu hafa þar aðstöðu til þess að geta veitt þá bestu þjónustu sem hægt verður að veita hér á landi.

Við erum að styrkja skólana. Þvert á það sem hér hefur verið sagt þá eru útgjöld á hvern nemanda í framhaldsskólanum að styrkjast ár frá ári, þau eru að hækka ár frá ári.

Við erum að bæta við á mörgum öðrum sviðum. Á sviði fræða erum við að reisa Hús íslenskunnar sem lengi hefur verið hola hér vestur á Melum. Við erum að bæta við menninguna. Við erum að byggja upp fyrir framtíðina, íslenska fræðilega framtíð. Sumir hafa talað um að við höfum verið að draga úr í því en það er svo sannarlega ekki þannig.

Í fjárlögum sem samþykkt voru, eins og hér hefur verið rifjað upp, þegar engin ríkisstjórn var hér með starfhæfan meiri hluta, var bætt í verulega frá fyrri fjárlögum. Líklegast var bætt meira í en nokkru sinni hefur verið gert. Við bættum í 50 milljörðum kr. frá fyrri fjárlögum. En samt erum við áfram að bæta í. Hvar er viðbótin? Jú, ég nefndi hér hús. Við erum að bæta við þyrlum, við erum að bæta við nýjum Herjólfi. Við erum að bæta við vegum allt land. En tökum bara menningu og listir, íþrótta- og æskulýðsmál. Hverju bætum við við á tímabilinu? 2 milljörðum kr., á háskólastiginu 3 milljörðum kr., sjúkrahúsþjónustu 16 milljörðum kr., heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa 11,5 milljörðum. (Gripið fram í: Hvar er fólk … til að tryggja þjónustuna?) Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta 5 milljarðar. Örorka og málefni fatlaðs fólks 15 milljarðar. (Gripið fram í.) Málefni aldraðra 9 milljarðar. Allt í allt eru þetta 70 milljarðar kr. Ég veit að hv. þingmanni leiðist að heyra það að hér sé (Gripið fram í.) verið að bæta 70 milljörðum kr. í velferðina á tímabilinu ofan á mikla viðbót sem (Gripið fram í.) samþykkt var hér í … (Gripið fram í.)

(Forseti (NicM): Ræðumaður hefur hér orðið.)

Ég skil það, svo ég segi það aftur, að hv. þingmanni hitni í hamsi við að sjá að hér bætir ríkisstjórn velferðar, framfara og stöðugleika (Gripið fram í.) 70 milljörðum kr. að raunvirði í velferðarmál. En við bætum víðar við. Við bætum við í samgöngumálum, þar bætum við við á tímabilinu milli 20–25 milljörðum frá fyrri fjármálaáætlun. Vissulega er það svo að hagfræðin er fræði skortsins að því leyti að við höfum aldrei nóg fyrir öllu því sem okkur gæti langað til að gera. Við höfum alltaf endanlega mikil gæði, en það er hlutverk okkar hér að skipta gæðunum á milli málefnasviðanna. (LE: … þeirra ríku.)

Ég heyrði það að hv. þm. Logi Einarsson telur að það séu bara þeir ríku sem leggist inn á sjúkrahús, það séu bara þeir ríku sem njóti menningar, (Gripið fram í.) bara þeir ríku sem fari í háskóla. En sem betur fer er það ekki svo. Sem betur fer er ekki ekki slíkt samfélag hér á landi eins og hv. þingmaður heldur. (Gripið fram í.) Það er svo sannarlega ekki þannig. Það er ekki bara ríkt fólk sem verður aldrað, það erum við öll sem njótum þeirra bóta sem eru í þessari áætlun.

Í húsnæðismálum er ríkisstjórnin ásamt ASÍ að byggja upp 2.300 íbúðir á fjórum árum. Við leggjum 3 milljarða kr. í sérstakt framlag til þessa átaks, sem er svo sannarlega mikilvægt. Við tökum þátt í samstarfi með sveitarfélögum um að bæta framboð á lóðum því að það er alveg hárrétt, það er eitt af vandamálunum í samfélaginu að húsnæðisverð hefur stórhækkað. Það verður ekki bætt nema með því að bæta framboðið. Við verðum að byggja meira upp. Þannig verðum við að halda áfram.

Ég vil að lokum segja mér finnst umræðan undanfarna tvo daga, sem ég hef fylgst með af áhuga, hafa verið vel heppnuð. Mér finnst hún hafa verið málefnaleg. Mér finnst vel takast til þegar hv. þingmenn koma með athugasemdir við hvern málaflokk um sig og einnig í gær þegar rætt var um áætlunina í heild. Það er mjög mikilvægt að fyrir málefni af því tagi sem við ræðum hér, eins og margir hv. þingmenn hafa bent hér réttilega á, er kannski mikilvægasta umræða sem við tökum og er mikilvægt að við gefum okkur tíma til þess að ræða hana með ítarlegum og málefnalegum hætti.

Nú færist umræða úr þingsalnum yfir í hv. nefndir þingsins. Ég veit að þar munu þingmenn áfram koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Ég vænti þess að þá muni koma fram margs konar sjónarmið, rétt eins og þau hafa komið fram hér í salnum. Það er alveg rétt, vissulega væri það gaman ef við gætum gert miklu meira, gætum bætt í hér og bætt í þar. En enn og aftur við erum að skipta takmörkuðum gæðum og við erum svo gæfusöm að við getum bætt í á mörgum sviðum og sjáum fram á mjög ánægjulega tíma og af því að hér er vinur minn, hæstv. heilbrigðisráðherra Óttarr Proppé, þá sjáum við fram á bjarta framtíð.