146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

orð heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[15:30]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög alvarlegt það sem komið hefur fram, að óskað hafi verið eftir að fulltrúar Landspítalans kæmu á fund velferðarnefndar til að fjalla um ríkisfjármálaáætlunina en að ekki væri áhugi á því hjá meiri hlutanum að þeir kæmu. Síðan er hér tilkynnt af stjórnarþingmanni að ráðherrann telji hins vegar ástæðu til að ræða við Landspítalann. Það væri ágætt ef bæði ráðherrann og fulltrúar Landspítalans mættu á fund velferðarnefndar og færu yfir þá fjármuni sem ætlunin er að setja í opinbera heilbrigðiskerfið. Það væri þá kannski líka ástæða til að fá fulltrúa Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Mér finnst jafnframt mjög einkennilegt að heyra frá hv. þm. Brynjari Níelssyni að svo virðist vera að hans mati að umræðan sem verið hefur um einkarekin sjúkrahús, ekki bara núna heldur undanfarin ár, hafi einfaldlega verið byggð á misskilningi. (Forseti hringir.) Þetta hafi bara alltaf verið í lagi og ekki verið nein ástæða til að ræða það. Það er þá ný túlkun sem kemur upp núna sem fyrri ráðherrar kannast ekki við.