146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

276. mál
[18:06]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka fyrirspyrjanda og ráðherra fyrir þessa smáumræðu sem hefur skapast og þeim sem hafa tekið þátt í henni. Ég held að þetta sé mjög brýnt mál. Ég fagna því líka að fólk tali svolítið í lausnum. Þetta snýst kannski ekki bara um að setja inn stöðu sálfræðinga í framhaldsskólana. Það þarf líka, eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom inn á áðan, að manna þær stöður. Þá þarf að vera svolítið lausnamiðaður eins og minnst var á. Teymisvinna, það er hægt að nýta sér jafnvel einhvers konar fjarþjónustu í þeim efnum. Lýðheilsumálin, forvarnirnar eins og nefnt hefur verið, þar er örugglega stóri þátturinn. Þar eigum við að vinna. Hvernig getum við látið fólkinu líða betur í samfélaginu, minnkað þessi streitueinkenni? Hvernig getum við kennt fólki að takast betur á við hafnanir og erfiðleikana sem að því steðja? Þar ætti skólakerfið að koma inn.