146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir það sem hv. þm. Óli Björn Kárason sagði áðan og átti að vera megininntak ræðu minnar. Óréttlæti er óþolandi hvernig sem það birtist og gegn hverjum sem það birtist. Sá dómur héraðsdóms í gær sem var minnst á varðandi Seðlabankann í máli Samherja er mjög skýr. Við munum sum aðdraganda þessa máls, hvað manni brá við þær fréttir og hvernig þær voru meðhöndlaðar á sínum tíma. Þær vöktu auðvitað með manni óhug sem leiddi langt út fyrir landsteinana og skaðaði þetta stóra og öfluga fyrirtæki mjög alvarlega. Það hefur komið ítrekað fram á mörgum stigum þessa máls að ekki virtist vera fótur fyrir neinu af því sem þar var sagt. Það er mjög alvarlegt að slíkt geti gerst.

Virðulegi forseti. Það eru fleiri einstaklingar sem eiga í stríði við fjármálafyrirtæki á Íslandi, telja að brotið hafi verið á sér en eiga erfitt með að sækja rétt sinn. Á undanförnum árum hafa margir leitað til mín með margs konar mál og ég verð að segja eins og er að svo virðist sem fjöldi Íslendinga hafi ekki fengið réttláta málsmeðferð í kerfinu og það er hvergi hægt að leita ráða til að sjá hvort þeir hafi verið beitt órétti. Þeim er bent á lögsókn, en einstaklingar fara ekki í málaferli við banka í áratugi. Það mun kosta þá miklu meira en viðkomandi skuld.

Ég held að Alþingi hafi skipað verkefnishóp af minna tilefni en slíku.