146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:18]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni Kolbeini Óttarssyni Proppé, hinum Proppénum, fyrir andsvarið. Þetta voru nokkrar spurningar. Ég held að ég hafi náð þeim flestum, annars kemur hv. þingmaður bara upp og skammar mig. Varðandi almannarýmið, hvort ég telji þörf á að setja einhvers konar girðingar eða ramma í kringum það þá er svarið já. Ég held hins vegar að nálgunin í þeirri vinnu gæti fókuserað meira á frelsi, á meiri sjálfsákvörðunarrétt, meiri tillitssemi og minni miðstýringu. Ég held að vel sé hægt að finna út úr því að búa til einhvers konar ramma sem sinnir þessu öllu án þess að ríkið þurfi að hafa lögfest það skilmerkilega í reglum sínum.

Hv. þingmaður minntist á auglýsingarnar. Ég held að mögulega hafi hugurinn farið eitthvert annað og það kom ekki nein spurning sem fylgdi með. (Gripið fram í.) Hann kemur þá bara og endurtekur hana.

Svo spurði hv. þingmaður mig að lokum hvort ég teldi að færri myndu nota tækifærið og hætta að reykja ef frumvarpið eins og það liggur fyrir núna yrði samþykkt. Ég tel að svo sé. Ég tel að eins og frumvarpið er lagt fyrir núna séu ekki nógu miklar gulrætur í staðinn. Skiptidíllinn er ekki alveg nógu skemmtilegur til að það sé þess virði. Þá held ég að það hversu mikið maður er rekinn út á götu hafi mikið um það að segja. Ég held að það sé mjög stórt atriði. Það að þetta nái einhvers konar samtali um hvernig við getum best gert þetta úr garði í kringum annað fólk er mjög mikilvægur þáttur í að núverandi reykingamenn skipti yfir. En auðvitað átta ég mig á að í stóra samhengi hlutanna er unga fólkið framtíðin og að einhverju leyti á fókusinn að vera þar. En til að svara spurningunni held ég að svarið sé já.