146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[22:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er eiginlega hægt að óska hæstv. ráðherra og ríkisstjórn til hamingju með þetta mál af því að það munar ekki miklu að þetta sé fyrsta sjálfstæða frumvarpið sem frá þessari ríkisstjórn kemur og henni ber ekki í sjálfu sér lögbundin skylda til að leggja fram. Ef við drögum frá það sem slíkt á við um, eins og fjármálaáætlun eða annað slíkt, hefur ekki komið mikið frá þessari stjórn og kannski skiljanlega segja einhverjir, hún er ekki nema 100 daga gömul eða svo. En þetta er þó sannarlega frumkvæðismál frá hæstv. ríkisstjórn og það má óska henni til hamingju með það, verra hefði það getað verið.

Að vísu er það ekki svo að sú hugsun sem hér að baki liggur sé uppfinning núverandi stjórnarflokka eða Viðreisnar sem sérstaklega hoppaði á þann vagn fyrir kosningarnar að boða lögfestingu jafnlaunavottunar. Kannski má segja að menn hafi ekki áður farið hátt um að þetta bæri að lögbinda, en þetta á sér alllangan aðdraganda, eins og ég veit m.a. að hæstv. ráðherra og framsögumaður veit manna best því að þetta rekur sig aftur á miðjan fyrsta áratug aldarinnar í viðræðum á vinnumarkaði. Síðan var það ríkisstjórn kjörtímabilsins 2009–2013 sem í raun og veru hrinti þessu af stað og setti vinnu í gang og staðfesti staðalinn sem á hér að byggja á. Þetta byggir því á eldri grunni. En núverandi ríkisstjórn og hæstv. ráðherra hefur tekið þetta upp á arma sína og lagt málið fram. Því bera að fagna, ekki síst vegna þess að það hefur verið eitthvert nöldur í einstökum afturhaldsröftum í stjórnarherbúðunum og ráðherra hefur ekki látið það slá sig út af laginu.

Það er engum blöðum um það að fletta að hvað sem líður öllum heimsmetum í jafnréttismálum þá stöndum við frammi fyrir brotalömum, tilfinnanlegum og í raun algjörlega ólíðandi mannréttindabrotum varðandi t.d. kynbundinn launamun. Breytir þar engu um að hann hefur verið bannaður lögum samkvæmt líklega í ein 40 ár ef ekki rúmlega það. Ég yrði ekki hissa þótt það hafi komið inn í félagsmálalöggjöfina einhvern tímann upp úr 1970, að beinlínis taka sérstaklega fram að konur og karlar skyldu hafa sömu laun fyrir sambærilega vinnu.

Mismununin er engu að síður staðreynd. Hver einasta könnun og rannsókn sem gerð hefur verið hefur alltaf sýnt sömu niðurstöðu konum í óhag, mismikið útslag frá 5 upp í 15%, en hver einasta niðurstaða hefur verið á þá hlið. Það getur ekki verið óheppileg tölfræðileg tilviljun, það er veruleiki þar á bak við. Þar þarf hæstv. ráðherra að ræða við t.d. dómsmálaráðherrann sem gengur með óskaplegar efasemdir innan í sér um að eitthvað sé til sem heiti kynbundinn launamunur. Kannski þarf ríkisstjórnin að hafa hópefli og námskeið fyrir sig sjálfa og skyldulið sitt svona í og með því að við tökum þetta frumvarp til umfjöllunar.

Hvers vegna gengur þetta svona illa þrátt fyrir áratugagamalt bann í lögum? Það er auðvitað vegna þess að vandamálið er mjög djúprætt. Það liggur í alda- og árþúsundagömlu feðraveldi. Þetta er auðvitað birtingarform þess að við erum ekki komin alla leið hvað fullkomin mannréttindi og jafnrétti varðar að því leyti.

Vegna þess að þetta liggur svona djúpt verður að hafa fyrirvara á því að þetta sé einhver patentlausn. Ég held að það sé mjög hættulegt um leið og við tökum þessu fagnandi að gera sér of háar hugmyndir um að þetta muni sópa vandanum út af borðinu. Því vil ég vara mjög sterklega við.

Ég held hins vegar að þetta geti verið ágætt tæki og gagnlegt ásamt með öðru. Kannski finnst mér pínulítið vanta inn í þetta og greinargerðina og málflutninginn samhengi hlutanna. Hvað annað getur stutt við þróun í þá átt sem við viljum? Ég hef ég ekki þaullesið frumvarpið en ég sé ekki neitt sérstaklega fjallað t.d. um mögulegt samspil jafnlaunavottunar og starfsmats, að störfin séu jafnframt metin. Það er að hluta til það sem gerist í þessu, vissulega ef menn fara inn í samanburðinn, en sveitarfélög mörg og fleiri aðilar hafa á undanförnum árum t.d. valið þá leið að fara í rækilegt mat á öllum störfum sem unnin eru á þeirra vegum og sannarlega náð talsverðum árangri í átt til aukins launajafnréttis með því. Það getur virkað bæði milli kynjanna og líka almennt, eins og einn hv. ræðumaður kom inn á áðan í andsvari. Að sjálfsögðu þarf líka að huga að launamun sem liggur lárétt óháður kyni.

Ég held að ef vel tekst til geti þetta orðið gagnlegt tæki, t.d. með starfsmati, en þó fyrst og fremst með því að við stöndum á bak við og stöndum vörð um langöflugasta tækið sem ekkert þarf að deila. Hvað er það? Það eru gagnsæir almennir kjarasamningar sem halda. Það er langmesta aðhaldið í því að ekki sé um kynbundinn launamun og annars konar launamisrétti að ræða, að allar upplýsingar séu uppi á borðunum. Þannig á það að vera.

Því miður var það á köflum á vinnumarkaði á undanförnum árum þannig að ákveðin svæði innan vinnumarkaðarins voru á allt annarri leið, hömpuðu einkasamningum og launaleynd jafnvel. Allan vanda átti að leysa með því að hver og einn starfsmaður kæmi skjálfandi á hnjánum inn til forstjórans og bæði um eitthvað fyrir sig, sem er ekki aðferðin, sem er ekki leiðin til að útrýma kynbundnum launamun eða öðru launamisrétti. Það eru gagnsæir, almennir sterkir kjarasamningar sem eru langbeittasta vopnið. Þessi vottun getur verið ágæt með þeim. Að sama skapi er launaleyndin og óumsamdar sporslur sem menn kría út hver eftir sínum aðstæðum aðalóvinurinn í þeim efnum.

Það er líka mjög mikilvægt að hafa í huga að þetta hróflar að sjálfsögðu ekki á nokkurn hátt við hinum starfsgreinabundna kynbundna launamun. Þetta breytir engu um þá staðreynd að konur eru að uppistöðu til sjúkraliðar í landinu, leikskólakennarar í landinu, grunnskólakennarar í landinu. Hvernig ætli kynjahlutföllin séu í ræstingu? Hafa menn séð marga pólska karla ganga hérna um og skúra undan okkar alþingismönnum? Nei, ég hef ekki rekist á þá. Það er mikið af konum.

Þetta hróflar ekki á nokkurn hátt við því að þarna liggur líka djúpstæður vandi sem þarf að takast á við, að kynbundinn launamunur festist ekki enn frekar í sessi en orðið er í gegnum það að heilu starfsgreinarnar verði alfarið mannaðar konum og það leiði til þess að laununum sé haldið niðri.

Ég held reyndar að margt fleira þurfi til ef við hefðum sæmilegan tíma til að ræða málin, frú forseti, eins og var í gamla daga þegar var hægt að halda almennilegar ræður á Alþingi, þá væri hægt að fara í ýmislegt í þeim efnum. Ég held t.d. að fæðingarorlofsmálin eigi að skoðast í þessu samhengi. Þetta er allt samhangandi. Aðstæðurnar á vinnumarkaði, þar er t.d. stór þáttur, þá verður því miður að hætta að hrósa hæstv. ríkisstjórn og gefa henni falleinkunn því að hún er eiginlega alveg metnaðarlaus í þeim efnum, því miður, það er bara þannig. Það er enginn metnaður að ætla einhvern tímann á fimm ára tímabili fjármálaáætlunar að koma þakinu úr 500 í 600 þús. kr., hvort það er eitthvað tímasett getur ráðherrann kannski upplýst um, en ég hef ekki fundið það, bara einhver skref einhvern tímann. Ekki orð um að lengja fæðingarorlofið eða bæta það að öðru leyti, setja í það gólf til þess að allir fái a.m.k. lágmarkslaun eða auka sveigjanleikann í töku þannig að menn geti geymt eitthvað af réttinum upp til leikskóla- og grunnskólagöngu barna o.s.frv. Þetta er samhangandi; aðstæðurnar á vinnumarkaðnum og það umhverfi sem við búum ungu barnafjölskyldunum o.s.frv.

Þess vegna finnst mér um leið og ég endurtek að það er ástæða til að taka þessu máli vel, mér finnst gott að hæstv. ráðherra leggur það fram og hefur haft það í gegnum ríkisstjórnina, það er eins og danskurinn myndi segja „meningen er god nok“ og við skulum taka því þannig, að við verðum að vera niðri á jörðinni þegar við ræðum hversu líklegt það er að þetta verði að einhverju miklu gegnumbroti í þessum málum.

Almennt eru stærstu veikleikarnir á vinnumarkaði hjá okkur, ef við berum okkur saman við nálæg lönd, þeir að grunnlaun fyrir hóflegan vinnudag eru allt of lág á Íslandi og lífskjörin eru allt of mikið borin uppi af löngum vinnudegi og yfirvinnu og öðru slíku. Það er hluti af vandanum. Hverjir eru líklegri til þess að sækja í það og hífa upp kaupið með lengri vinnudegi og meiri yfirvinnu o.s.frv.?

Við þurfum þar af leiðandi að horfa alveg niður í rætur vandans sem liggja djúpt í aldagömlu og árþúsundagömlu feðraveldi og líka í tilteknum grundvallarskekkjum í launasamsetningunni í landinu og á vinnumarkaði, sem hefur lengi skilið okkur frá t.d. hinum norrænu ríkjunum. Hér hefur það almennt ekki verið á dagskrá að menn gætu lifað sómasamlegu lífi af dagvinnulaunum í hóflegri vinnuviku, þótt hún væri 40 stundir, ekki styttri eins og menn eru víða farnir að tala um. Við eigum sem sagt þó nokkuð í land enn þá með þá hluti.

Varðandi frumvarpið og efni þess að öðru leyti vil ég aðeins nefna eftirlitsþáttinn. Ég hef af honum nokkrar áhyggjur. Mér finnst svolítið losaralega um hann búið. Menn fá þessa vottun, senda hana til Jafnréttisstofu og Jafnréttisstofa lætur þá hafa skírteini og það gildir í þrjú ár, en hvað svo? Hvernig ætla menn að hafa eftirlit með því að það sem vottað var sé veruleikinn í reynd á stöðunum? Fær Jafnréttisstofa umtalsverða fjármuni til að annast um þetta eftirlit? Er það inni í fjármálaáætluninni? Vill hæstv. ráðherra vera svo vinsamlegur að upplýsa það á eftir? Stendur til að búa hana þeim tólum, tækjum og fjármunum sem þarf til þess að við getum haft sæmilega trú á því að það verði eitthvert bit í þessu og þetta verði ekki orðin tóm?

Það mun ekki gera jafnréttisbaráttunni á Íslandi gagn ef þetta verður máttlaust, ef þetta verður hálfgerð sýndarmennska, ef þetta verður hálfgerður hvítþvottur. Þetta verður að vera í alvöru. Við verðum að tryggja að við höfum umtalsverða trú á því að þetta verði meira en innrammað spjald upp á vegg, að viðkomandi fyrirtæki hafi fengið jafnlaunavottun. Sú hætta er til staðar, við þekkjum hana úr sögunni, að þetta verði fyrst og fremst ágætisbúbót fyrir eftirlitsiðnaðinn, vottunarfyrirtæki, þetta verði svolítil staðalframleiðsla á jafnlaunavottun, þetta verði svolítið „copy/paste“ á áætlunum sem ganga frá einu fyrirtæki til annars: Hérna góði minn, sjáðu hérna, hérna, hérna, 1.-36. gr., hér ertu kominn með jafnlaunavottun.

Það má náttúrlega ekki verða. Það verður að fara ofan í grunninn og gera þann samanburð og sannreyna að þeim hlutum sem þarf til sé þá komið í lag til þess að fyrirtækið uppfylli öll skilyrði. Þetta má ekki verða neinn hvítþvottur.

Hafandi sagt þetta og með þeim fyrirvörum og varnöglum sem ég hef slegið þá fagna ég þessu máli, dreg ekkert í land með það. Ég hefði gjarnan viljað fá það í þá þingnefnd sem ég sit í til að vinna í því. Það hefði orðið feiknarlega vel unnið hjá okkur í velferðarnefnd [Hlátur í þingsal.] ef það hefði komið þangað, á því er ekki vafi, en auðvitað treystum við á hina ágætu allsherjarnefnd og vonum að hún standi sig í þessu. Ég endurtek hamingjuóskir til hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar fyrir að hafa komið þessu frumvarpi fram. Ég er ekki frá því að það eigi eftir að reynast svo að þetta verði það skásta sem frá henni kemur.