146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[22:28]
Horfa

Bjarni Halldór Janusson (V):

Frú forseti. Það er gott að koma hingað inn nýr og fá að tala mikið. Þess vegna fagna ég því að við verðum hér til miðnættis en ég ætla að reyna að hafa ræðuna eins stutta og ég get til að leyfa öðrum að komast að.

Ég ætla að byrja á að nefna að ég er ánægður með að vera sitjandi þingmaður þegar þetta mikilvæga réttlætismál er tekið fyrir. Ég vil að mínar ágætu skólasystur, þegar ég fer aftur í háskólann, fái greitt sanngjarnt kaup að námi sínu loknu.

Jafnrétti er forsenda réttláts samfélags. Allir skulu hafa jöfn tækifæri til þátttöku og áhrifa í samfélaginu, um þetta erum við sammála, annars er samfélagið ekki réttlátt. Hin sanna dyggð manna er hæfileikinn til að geta lifað saman sem jafningjar. Raunar er það svo á Íslandi að ólöglegt þykir að brjóta gegn jafnrétti í mörgu, en til marks um slíkt má nefna að mismunun á grundvelli kyns eða annarra þátta er ólögleg. Þegar tekið hefur verið tillit til allra málefnalegra þátta sem skilja á milli starfsmanna, vinnustundir, menntun, reynslu og getu, stendur eftir að konur fá að meðaltali talsvert lægri laun en karlar fyrir sama starf. Launamunur sem ekki verður skýrður með öðru en kynferði er staðreynd hér á Íslandi, þótt deilt sé um hve mikill munurinn er. Allar kannanir og rannsóknir sem hafa verið gerðar á kynbundnum launamun hér á landi hafa mælt slíkan mun konum í óhag. Nýjustu mælingar benda til að kynbundinn launamunur sé 5,7% hið minnsta miðað við tölur velferðarráðuneytisins.

Nú er verið að leggja til að eftirfarandi ferli verði lögfest:

Maður lætur gera jafnlaunavottun. Þegar því ferli er lokið fást upplýsingar um hvort óútskýrðan launamun sé að finna eða ekki. Þá gefst honum tækifæri til að leiðrétta slíkt. Í kjölfarið skilar hann inn vottun samhliða t.d. ársreikningum. Það er ekki mikill munur á þessu annars vegar og hins vegar kröfum um starfsumhverfi, starfsöryggi og annað sem við lítum á sem sjálfsagðan hlut.

Hvað nær þetta yfir marga? getum við spurt okkur. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fann á vef Hagstofu í fljótu bragði eru í heild 16.578 launagreiðendur á Íslandi. Launagreiðendur með níu eða færri starfsmenn eru 13.865 talsins, um 84% af heild. Gróflega má áætla að launagreiðendur með 25 starfsmenn eða færri séu hátt í 90% af heild. Því nær þessi aðgerð einungis til um 10% launagreiðenda landsins. Þess vegna er þetta ekki íþyngjandi fyrir flest fyrirtæki landsins líkt og oft er haldið fram.

En þó er það gífurlegt réttlætismál fyrir marga launþega. Í heild eru um 188.300 launþegar á Íslandi. Hjá þessum 84% af launagreiðendum má finna um 17% allra launþega. Þá eru 4% launagreiðenda með 50 eða fleiri starfsmenn. Hins vegar má finna þar um 127.300 launþega, um 68% af heild. Niðurstaðan er sem sagt sú að þetta nær yfir fáa launagreiðendur, þ.e. um 10–16%, en nær yfir gríðarlega marga launþega, 68–83%.

Frú forseti. Hér er raunar ekki bara verið að auka jafnrétti í launamálum, heldur einnig gagnsæi í þeim. Það er mjög mikilvægt. Þegar upplýsingar liggja fyrir og þegar upplýsingar eru samhverfar frekar en ósamhverfar starfar markaðurinn betur. Raunar er það svo að oft er átt við svokallaðan markaðsbrest eða ekki nægilega mikla skilvirkni innan markaðar þegar upplýsingar eru ósamhverfar, en með öðrum orðum þýðir það að aðilar í viðskiptum hafa mismiklar upplýsingar um það sem átt er í viðskiptum með. Þess vegna tel ég að aðgerðir í þágu gagnsæis og jafnréttis til að bregðast við markaðsbresti sem þessum séu af hinu góða.

Því er oft haldið fram að aðgerðir til að tryggja aukið jafnrétti séu íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir sem eiga ekki rétt á sér vegna þess að þær skerða frelsi o.s.frv. Þegar betur er að gáð er það ekki alveg svo einfalt. Það kann að vera að slíkar aðgerðir séu íþyngjandi en þeim aðgerðum til varnar ber að nefna hve íþyngjandi það er fyrir hina einstaklingana sem ekki upplifa jafnrétti að fullu leyti sökum mismununar. Aðgerðir á borð við lögbindingu jafnlaunavottunar geta e.t.v. verið íþyngjandi fyrir fyrirtæki vegna aukins kostnaðar sem fylgir því að framkvæma slíka vottun, en þó getur slíkt varla verið eins íþyngjandi og það er fyrir manneskju að fá ekki rétta upphæð greidda fyrir vinnu sína.

Einnig þurfa aðgerðir sem þessar til að tryggja jafnrétti ekki endilega að skerða þetta svokallaða frelsi eða frjálslyndi. Einn helsti höfundur frjálslyndisstefnunnar, heimspekingurinn John Stuart Mill, sagði að jafnrétti og frelsi yrði aldrei innan samfélags væri jafnrétti ekki til staðar. Frumhugtök frjálslyndisstefnunnar eru þar með bæði frelsi og jafnrétti. Það þýðir þá að manneskjur verðskulda jafna virðingu sem manneskjur. Í þeim skilningi er víðtækt frelsi nauðsynleg forsenda þess að komið sé fram við manneskjur sem jafningja. Frjálslyndi gengur út á að einstaklingar skulu hafa frelsi til að leita lífshamingju á eigin forsendum, vera sínir eigin herrar og höfundar eigin lífs. Kjarnamerking frelsishugtaksins er að maður sé frjáls sé hann ekki beittur þvingunum, hvorki hið ytra né hið innra, eigi einhverra kosta völ og hafi mátt til að velja þar á milli. Menn njóta þá frelsis þegar þeir hafa einhvern mátt til framkvæmda og eru sjálfráða.

Frjálslyndi treystir á einstaklinginn og getu hans til sjálfstjórnar fremur en vald yfirboðara og getu hans til að hafa stjórn á einstaklingnum. Frjálslyndi treystir einstaklingnum til að haga lífi sínu og athöfnum að eigin vild, svo framarlega sem slíkt bitnar ekki á öðrum. Það gerir jafnframt kröfu um að stjórnarathafnir séu hafnar yfir allan skynsamlegan vafa — og að þar séu almannahagsmunir í forgrunni. Ekki er réttlætanlegt að einn hafi ráð yfir öðrum nema með frjálsu samþykki. Út frá þessu er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að frjálslyndisstefna leyfi ekki mismunun á siðferðislega annarlegum forsendum.

Allt þetta sem ég hef nefnt hér styður við þá fullyrðingu að mikilvægar jafnréttisaðgerðir sem þessar séu í anda hinnar raunverulegu frjálslyndisstefnu. Því er næsta skref í baráttu frjálslyndis óneitanlega að auka jafnrétti. Jafnréttið tryggir einstaklingum frelsi til að nýta krafta sína og hæfileika til fulls því að frelsi og jafnrétti mætast á miðri leið.