146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

nám í myndlist fyrir fólk með þroskahömlun.

[15:24]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra svarið. Þetta segir okkur kannski eitthvað um það hver staða skólanna er, fjárveitinga til þeirra, að eitthvað vanti þarna upp á. Því í þessu samhengi er óhjákvæmilegt að benda á að í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem við fullgiltum hér síðastliðið haust og skuldbundum okkur til að virða og framfylgja, er mikil áhersla lögð á skyldur stjórnvalda til að tryggja fötluðu fólki jöfn tækifæri á við aðra. Það er sérstaklega tiltekið að það skuli í því skyni vera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki tækifæri til menntunar og þátttöku í menningarlífi. Því vil ég spyrja ráðherra: Ber okkur ekki skylda til að uppfylla þetta og fylgja þessu eftir?