146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[17:24]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað þingsins að taka ákvörðun um með hvaða hætti við störfum hér. Þetta hefur stundum borið á góma og gerði á síðasta kjörtímabili. Það átti sérstaklega við um þingflokk hv. þingmanna Pírata. Þeir töldu sig ekki geta sinnt nefndarstörfum vegna fámennis og mikillar vinnu. Það er viðtekin venja í þinginu að þingmenn almennt sinna starfi í tveimur nefndum. Nefndarfundum er þannig raðað niður að menn geti sótt fundi annars vegar á mánudögum og miðvikudögum og hins vegar á þriðjudögum og fimmtudögum og geti þannig með góðu móti sinnt starfi í tveimur nefndum sem funda reglubundið á þessum tíma. (Gripið fram í: Það hefur sýnt sig.) Þannig reynir þingið að mæta þessu sjónarmiði. Það er síðan þingflokkanna að raða fólki niður í nefndir og taka tillit til þessa, að menn séu ekki settir í nefndir sem báðar funda á mánudögum og miðvikudögum, þess sé gætt. Horfandi yfir hvernig þetta var á síðasta kjörtímabili þá var greinilega ekki unnið eftir þessari reglu innan þingflokksins en það er annað mál. Ég vísa þessu bara til þingsins ef menn telja að það þurfi að mæta þessu með einhverjum hætti.