146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

staðall um jafnlaunavottun.

[17:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Nú erum við að hefja aðra lotu 1. umr. um frumvarp til laga um jafnlaunavottun. Þegar fyrri lotan hófst hér fyrir réttum 20 klukkutímum kvaddi ég hér mér hljóðs til að benda á að Alþingi ætti eitt einasta eintak af þessum staðli, sem mér þætti ekki endilega besti grundvöllurinn fyrir okkur 63 í salnum að byggja okkar ákvarðanir á. Ég beindi því þess vegna til þess forseta sem þá sat í stólnum að þinginu yrði útveguð þau 63 eintök sem ég tel vera nauðsynlegt til að við tökum umræðuna um þetta mál. Við snögga yfirferð hér í hliðarherbergi sé ég þessi 63 eintök ekki og vil því spyrja forseta hvað líði afhendingu þeirra eintaka, ég geri ekki ráð fyrir öðru en að þau séu á leiðinni.