146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[18:56]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég get ekki á mér setið að tala aðeins meira um þetta mál. Þessi mál eru mér nokkuð hugleikin og mér þykir, líkt og fyrri ræðumanni, hv. þm. Eygló Harðardóttur, gott að hafa fjármálaráðherra hér enn í salnum. Hann þarf þó ekki að breyta plönum sínum þess vegna. Mig langar að ræða aðeins um hvað þarf að gera meira, eins og ég átti aðeins orðastað við hv. þm. Nichole Leigh Mosty um áðan. Mig langar að brýna til dáða.

Hæstv. ráðherrar í þessari hæstv. ríkisstjórn hafa talað um jafnréttismál sem eitt af stóru málum þessarar ríkisstjórnar. Sé stjórnarsáttmálinn skoðaður segir eftirfarandi um jafnréttismál, með leyfi forseta:

„Jafnrétti í víðtækri merkingu er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi. Þar vegur jafnrétti á vinnumarkaði þungt. Í því skyni að sporna við launamisrétti af völdum kynferðis verði áskilið að fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri taki upp árlega jafnlaunavottun.“

Það er gott fyrri sinn hatt, en þetta er það eina sem segir beinum orðum um jafnrétti. Síðan er talað um að kappkostað verði að þjónusta við börn og unglinga og fjölskyldur sé ætíð sem best og að íslenskt samfélag verði barnvænt. Talað er um ólíkar fjölskyldugerðir og þess háttar og að hámarksfjárhæðir fæðingarorlofs verði hækkaðar í öruggum skrefum á kjörtímabilinu. Þrátt fyrir að hafa lært íslensku við Háskóla Íslands átta ég mig ekki enn á hvaða öruggu skref þetta eru, en það verður áhugavert að sjá hvenær það verður gert.

Þetta þarf ekkert endilega að vera skelfilegt eða til marks um að ríkisstjórnin ætli sér ekki að sinna jafnréttismálum að öðru leyti en með þessu frumvarpi þó að þau hafi ekki ratað í stjórnarsáttmálann. Fólk sem er komið til starfa sér að víða er pottur brotinn og að taka þarf á hlutum. Einmitt þess vegna langar mig til að brýna til dáða af því að það er ekki bara á vinnumarkaði sem jafnrétti vegur þungt, þó að það geri það vissulega þar. Það er í nánast öllu samfélaginu, liggur mér við að segja. Á vinnumarkaði eru það svo ekki bara launin þó að þau vegi vissulega gríðarlega þungt.

Líkt og ég sagði í fyrri ræðu minni í gær þá fagna ég þessu frumvarpi, en vil benda á að það þarf að gera meira.

„Jafnrétti í víðtækri merkingu er órjúfanlegur réttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi“, segir í stjórnarsáttmálanum. Það er gott. Það er góð setning. En ég hvet hæstv. ráðherra til dáða til að fara eftir þessari setningu einni og sér, og vissulega hinum líka, en horfa á hana eina og sér: „Jafnrétti í víðtækri merkingu er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi“. Það þýðir að við þurfum að horfa út fyrir jafnlaunavottunina líka. Tökum það skref. Frábært.

Ég treysti ráðherra og hv. nefnd til að finna leið til að jafnlaunavottunin virki og að það komi allt eins vel út og mögulegt er. En tökum næstu skref. Hver er staðan í heiminum varðandi konur og karla?

Ég fór aðeins yfir það í gær og þarf ekkert að fara í smáatriðum yfir það. En hún er eins hér. Hver er staðan varðandi konur í áhrifastöðum? Hver er staðan varðandi eign karla og kvenna á hlutabréfum? Erum við með kynjaskipta greiningu á hlutabréfamarkaði? Hver er staðan á konum í ákvarðanatökuferli? Hvar eru ákvarðanir teknar þótt jöfnum launum hafi verið náð? Förum við karlarnir bara saman í golf og gufu og tökum ákvarðanirnar þar? Hvernig er þessu háttað? Hvernig er samþykktum hv. Alþingis og jafnvel stefnumótun ríkisstjórna í jafnréttismálum fylgt eftir? Hvað höfum við gert margar ágætissamþykktir og samþykkt margar stefnur í þessum efnum á síðustu árum og áratugum? Hefur þeim verið fylgt vel eftir? Hvað sjáum við í menntamálum, í auknu fjármagni í jafnréttisfræðslu?

Eitt lítið dæmi: 25 ára reglan um aðgang að framhaldsskóla bitnar ekki síst á konum sem eignast börn, hætta í framhaldsskóla og langar svo að fara aftur í framhaldsskóla en geta það ekki af því að ríkisstjórnin ætlar að viðhalda 25 ára reglunni.

Það er ekki nóg að setja falleg orð á blað (Forseti hringir.) og veifa svo einu góðu máli, sem ég ítreka að er gott. Það þarf að horfa (Forseti hringir.) heildstætt á málið og það þarf að þora að setja (Forseti hringir.) fjármuni í málaflokkinn á öllum sviðum.