146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[19:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Herra forseti. Það er mikill gleðidagur þegar þetta frumvarp er komið svo langt að það er að fara til nefndar. Þetta er kannski eitthvert mikilvægasta frumvarpið sem lagt er fram af hv. ríkisstjórn þetta vor. Þetta er mikilvægt frumvarp vegna þess að við erum að stíga skref í átt að launajafnrétti. Það á auðvitað að vera jafnrétti kynjanna á öllum sviðum, ég get tekið undir það með öllum þingmönnum sem hér hafa talað. Þetta frumvarp mun ekki leysa jafnrétti kynjanna á öllum sviðum, því fer fjarri, en það mun leysa ákveðið kynjamisrétti. Það mun útrýma kynbundnum launamun innan fyrirtækja.

Ég heyri að sumir hv. þingmenn ræða um launaleynd og hafa áhyggjur af því að laun verði opinber. Ég er einhver skæðasti andstæðingur launaleyndar í landinu. Undanfarin 20 ár hef ég gefið út blað með upplýsingum um tekjur þúsunda Íslendinga við misjafnar undirtektir. Sumir telja betra að þessi mál fari leynt. Ég segi: Nei, það er betra að almenningur hafi sem mestar upplýsingar. Við eigum að vita hvernig aðrir standa. Þá getum við sagt: Er þetta rétt, er þetta satt? Þetta er satt, já, en er þetta sanngjarnt? Það getur verið allt annað mál. Það er alveg örugglega ekki sanngjarnt að kynin hafi mismunandi laun. Til er annar skóli sem segir: Það er enginn kynbundinn launamismunur á Íslandi, það eru allt aðrar ástæður, það er bara óútskýrður launamismunur. Það er ekkert víst að það sé kynið sem skýri þann mun jafnvel þó að það komi fram í könnun eftir könnun að það sé akkúrat eina breytan sem skýri muninn. En gott og vel. Förum í jafnlaunavottunina og segjum að hún leiði þá í ljós að enginn mismunur sé eftir kynjum, þá er það mjög ánægjuleg staðfesting á því að við höfum staðið okkur vel. Ég er sannfærður um að það verður ekki niðurstaðan í flestöllum fyrirtækjum og stofnunum.

Ég þekki til í nokkrum fyrirtækjum og stofnunum sem hafa farið í gegnum þetta ferli. Sum fyrirtæki hafa gefist upp í ferlinu. Hvers vegna hafa þau gefist upp? Það er vegna þess að þau hefðu þurft að breyta launakerfum sínum allt of mikið. Í hvaða átt? Í þá átt að hækka konur upp í laun sem karlar, sem sátu við hliðina á þeim og voru að vinna nákvæmlega sömu störf, höfðu; þeir höfðu hærri laun. Fyrirtækin hafa hikað við að gera þessar breytingar og við það verður ekki unað.

Ég er stoltur af því að þetta baráttumál Viðreisnar sé komið í frumvarpsform og er ánægður yfir þeim viðtökum sem það hefur fengið hjá flestöllum þingmönnum.

Þann 15. september árið 2015 skrifaði ég grein sem hét „Hvað vill Viðreisn“. Ég ætla að fá að lesa upp úr henni tvo punkta. Það er ánægjulegt að í dag hef ég haft tækifæri til að vitna tvívegis í þessa grein. Á ársfundi Landsvirkjunar vitnaði ég í 6. punkt:

„Skynsamleg og sjálfbær nýting auðlinda er jákvæð með það í huga að óskert náttúra er líka auðlind.“ — Þetta á að vera rauði þráðurinn í starfsemi Landsvirkjunar.

En 8. punkturinn kemur málinu sem við ræðum hér við:

„Jafnrétti kynja verði tryggt á öllum sviðum.“

Mér finnst að öll fyrirtæki yfir ákveðinni stærð eigi að fara í jafnlaunavottun, en ekki eru allir sammála um það. Sennilega mun það gerast af sjálfu sér því að fólk vill ekki skipta við fyrirtæki sem standast ekki slíka skoðun. Þannig ætti það auðvitað að vera. Hver vill skipta við fyrirtæki sem mismunar kynjunum í launum? Hver vill skipta við fyrirtæki sem segir: Ég tími ekki að fara í svona vottun. Ég tími ekki að leiðrétta launamisréttið. Ég veit það ekki. Það kann að vera einhverjir sækist eftir slíkum viðskiptum, en ég segi: Ekki ég, ég hef engan áhuga á að skipta við fyrirtæki af því tagi. En reynslan hefur hins vegar sýnt að það er ekki nóg að höfða til sómatilfinningar, það er ekki einu sinni nóg að höfða til þeirra laga sem segja að ekki megi mismuna kynjum í launum, það hefur verið í lögum í meira en hálfa öld og hverju höfum við náð? Hér hafa menn nefnt 10% launamun, annars staðar hafa menn nefnt 12% eða 15%; þó að það væri bara 2% þá verður ekki við það unað.

Það er ekkert hátt gjald fyrir það að ná þessu óréttlæti út úr samfélaginu þó að menn þurfi að borga einhverja 100 þúsund kalla, þó að það séu jafnvel einhverjar milljónir, vegna þess að kostnaðurinn við það að mismunað sé eftir þætti eins og kynferði er algjörlega óviðunandi og það er blettur á íslensku samfélagi. Ég er mjög ánægður með að jafnréttismálaráðherra skyldi gera þetta eitt af forgangsmálum sínum. Eins og hér hefur komið fram þá eru auðvitað fleiri mál sem við þurfum að setja fram. Það eru fleiri mál, það er ekki bara í sambandi við réttindi kynjanna, við erum að horfa á réttindi fólks með fötlun, réttindi barna foreldra sem búa ekki saman og svo fjöldamargt annað.

Þó að það frumvarp sem hér er lagt fram, og við erum hér að fara að afgreiða til nefndar, leysi svo sannarlega ekki öll þau vandamál sem við gjarnan vildum leysa; leysi ekki einu sinni það vandamál sem að er stefnt, þ.e. kynbundinn launamun, mun það alveg örugglega draga úr slíkum launamun. Það er mjög gott og stórt skref í rétta átt. Þetta er frumvarp sem hefur vakið mikla athygli um allan heim. Fólk mun líta til Íslands sem frumkvöðuls á þessu sviði. Við getum verið stolt, öll þau sem styðjum þetta frumvarp. Dagurinn í dag er gleðidagur í jafnréttisbaráttu kynjanna.